Tenglar

17. júlí 2008 |

Kíkir á Reykhólavefinn í New York á morgun

Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugstjóri og formaður FÍA.
Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugstjóri og formaður FÍA.
1 af 6

Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugstjóri og formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), er betur þekktur meðal vina og kunningja sem Jói Baddi. Hann tyllti sér í dag á flugbrautina á Reykhólum á fornfrægri vél og skaust í mömmumat inn í Mýrartungu á milli þess sem hann renndi fyrir fisk við Ísafjarðardjúp. Á morgun verður hann kominn til New York sem flugstjóri á öllu stærri vél eða Boeing 757.

Farkosturinn í dag var Cessna 180 árgerð 1953, sem er einhver fyrsta sjúkraflugvélin hérlendis. Hún ber nafnið Björn Pálsson eftir fyrsta eiganda sínum, sjúkraflugmanninum alkunna, sem notaði hana alla sína tíð og fór meðal annars á henni í sjúkraflug til Grænlands. „Ótrúlegt", segir Jói Baddi um það, enda breytast tímarnir í fluginu eins og öðru með örskotshraða.

 

Hann segir það skemmtilegt að fljúga þessari gömlu og merkilegu vél og leika sér á henni. Oft hefur hann lent á flugbrautinni á Reykhólum á hinum og þessum flugvélum og það svo sem ekki að ástæðulausu: „Pabbi og mamma unnu í mörg ár á skrifstofu hreppsins hérna hinum megin við veginn. Núna var ég bara að kíkja í mat til mömmu."

 

Jói Baddi er upprunninn í Hnífsdal við Ísafjarðardjúp utanvert, sonur Guðmundar H. Ingólfssonar, sem á sínum tíma var forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar, og Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur, fyrrum alþingismanns, systur Adda Kitta Gau þingmanns og flokksformanns. Nálægt miðjum síðasta áratug var Guðmundur fenginn til að koma suður yfir heiðar og taka að sér starf sveitarstjóra í Reykhólahreppi og settust þau hjónin að í Mýrartungu II í Reykhólasveit. Í veikindum Guðmundar tókst Jóna Valgerður síðan starf hans á hendur og gegndi því að fullu frá andláti hans árið 2000 og fram til 2002. Hún er enn búsett í Mýrartungu og verður þar iðulega fjölsetinn bekkurinn af börnum og tengdabörnum og barnabörnum og öðru skylduliði þó að ekki komi allir á flugvélum í mat eða kaffi. Hún sótti strákinn á Reykhólaflugvöll í dag og skilaði honum þangað aftur.

 

Vestfirðingar og landsmenn allir kynntust Jóa Badda á sínum tíma sem fréttamanni. Hann var ennþá nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði þegar hann byrjaði í afleysingum á sumrin á Svæðisútvarpi Vestfjarða hjá Finnboga Hermannssyni. Síðan vatt það upp á sig, eins og hann orðar það, en síðasta samfellda vinnan hans hjá RÚV var þegar hann var fréttamaður á Sjónvarpinu fyrir tíu árum.

 

Um svipað leyti byrjaði hann sem flugmaður í innanlandsflugi á Fokkerunum og átti næstu misserin ófáar ferðirnar á alla áfangastaði hérlendis og víðar. Í ársbyrjun 2000 fór hann úr innanlandsfluginu í millilandaflugið. Núna er hann flugstjóri á Boeing 757 hjá Icelandair og mörgum kunnur úr fréttum sem formaður FÍA, einkum varðandi kjaramál og þess háttar, enda þótt hann sé ekki einu sinni orðinn hálffertugur.

 

Í dag skrapp Jói Baddi vestur í Ísafjarðardjúp að veiða og lenti á Arngerðareyri. Þaðan skaust hann á Reykhóla í mat hjá mömmu og fór síðan aftur að Arngerðareyri. Hann var í veiðiskapnum þangað til klukkan að ganga níu í kvöld en fór svo beint suður og heim í Garðabæinn. „Það er alltaf gott að koma í mat til mömmu", segir hann og bætir við: „Núna fékk ég hangiket og rabarbaragraut."

 

Flugvélin Björn Pálsson, sem hefur alltaf borið einkennisstafina TF-HIS, er eins hreyfils og fjögurra sæta. Björn notaði hana alla tíð til sjúkraflugs ásamt stærri vélum og reyndist hún einstakur happagripur. Hún er í góðu standi og er í eigu flugklúbbs atvinnuflugmanna, sem gáfu henni nafn hins þjóðkunna eiganda síns honum til heiðurs. Jói Baddi viðurkennir að talsverður munur sé á því að fljúga þessari vél og þotunum: „Já, það er stór munur þó að flugið sjálft sé alveg eins í grunninn", segir hann. „En - á fallegum dögum eins og núna er virkilega gaman að fljúga svona vél, alveg geggjað að fljúga yfir landið og skoða staði sem ekki allir sjá og eru ekki aðgengilegir öðruvísi - fossa, dalverpi, allt ..."

 

Í lokin á spjalli okkar segir hann: „Ég kíki svo á Reykhólavefinn í New York á morgun."

 

Athugasemdir

Einar Örn Thorlacius, mnudagur 21 jl kl: 09:10

Gaman að lesa viðtalið við Jóa Badda. Hann flaug einu sinni með mig og Jónu Valgerði á þessari gömlu vél frá Reykhólaflugvelli til Ísafjarðar á einhvern fund og svo til baka aftur daginn eftir, minnir mig.

En það er ekki rétt að Jóna Valgerður hafi verið sveitarstjóri Reykhólahrepps frá árinu 2000 til 2005, eins og segir hér að ofan. Ég tók við starfi sveitarstjóra af sómakonunni Jónu Valgerði 1. október 2002 og gegndi því til 1. ágúst 2006. Jóna Valgerður gegndi formlega starfi sveitarstjóra 2000-2002.

Kær kveðja til allra í Reykhólahreppi

Einar Örn Thorlacius
Hvalfjarðarsveit

Hlynur Þór Magnússon, mnudagur 21 jl kl: 19:55

Þakka þér fyrir hlýleg orð, ágæti gamli vinur Einar Örn. Ja, eins og ég reyni nú yfirleitt að vera fremur nákvæmur! Ég veit mætavel að þú varst hér sveitarstjóri í fjögur ár og fram til 2006. Hvað á að kalla þetta? Pennaglöp? Fljótfærni? Almennan asnaskap? Hvað sem því líður - ég er búinn að leiðrétta ártalið í textanum.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31