„Kjaramálin eru margskonar“
„Eitt er það sem verulega brennur á mörgum eldri borgurum og það er hvernig á að ná í allar þær upplýsingar sem oft er nauðsynlegt að fá þegar ýmis vandamál koma upp. Hvert á þá að leita? Það er enginn einn sem býr yfir þeim upplýsingum. Eitthvað er hjá Tryggingastofnun, annað hjá lífeyrissjóðnum, heimilislæknirinn getur sagt okkur eitthvað, félagsmálafulltrúi sveitarfélagsins hefur eitthvað.“
„Ef LEB gæti rekið upplýsingagátt fyrir eldri borgara og haft starfsmann við að sinna því, þá gæti það að einhverju leyti komið í stað embættis umboðsmanns aldraðra. Í LEB unnum við að slíkri upplýsingagátt á sl. ári í samstarfi við Háskóla Íslands. Það lofaði góðu en fjármuni vantar til að hægt sé að ljúka við og starfrækja upplýsingagáttina.“
Ofanritað er úr grein eftir Jónu Valgerði Kristjánsdóttur í Mýrartungu II í Reykhólasveit, formann Landssambands eldri borgara (LEB), sem birtist í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni Kjaramálin eru margskonar. Síðar í greininni segir Jóna Valgerður:
Eitt af því sem við leggjum mikla áherslu á er að sú tillaga sem starfshópur um endurskoðun almannatrygginga hefur náð samstöðu um verði að veruleika með breytingu á lögum um almannatryggingar sem tæki gildi árið 2013. Með tillögunni er verið að minnka þær tekjutengingar sem í dag valda því að fólk sér engan ávinning af því að hafa lífeyrissjóðstekjur allt að 73.000 kr. Þar er skerðing á sumum bótaflokkum almannatrygginga 100%.
Við leggjum til að minnka þá skerðingu í 80% á næsta ári og síðan niður í 45% á næstu þremur árum. Einnig að bótaflokkar verði sameinaðir í einn eftirlaunaflokk.
Ef við náum þessu fram verður það til hagsbóta fyrir okkar fólk á næstu árum auk þess að einfalda kerfið verulega. LEB leggur jafnframt til endurheimt grunnlífeyris með sérstakri bókun. Enn bólar þó ekkert á því þegar þetta er skrifað að slíkt frumvarp komi fram á Alþingi og finnst mér það alveg furðulegur seinagangur.
Grein Jónu Valgerðar er að finna í heild undir Sjónarmið í valmyndinni hér vinstra megin og líka með því að smella hér.