27. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is
Kjörstjórnin ánægð með Bjarkalund
Heildarkjörsókn í Reykhólahreppi í Alþingiskosningunum í dag var 75,6%. Á kjörskrá voru 205, þar af karlar 101 og konur 104. Á kjörstað kusu 131 eða 63,9% en atkvæði utan kjörfundar kusu 24. Alls kusu því 155 manns. Stærri hluti karla en kvenna kaus á kjörstað í dag eða 72 á móti 59 konum. Atkvæði utan kjörfundar voru fleiri frá konum en körlum eða 14 á móti 10.
Kosningin fór fram í Bjarkalundi. Kjörstjórnin vill koma á framfæri innilegu þakklæti til Bjarkalundar og starfsfólksins fyrir einstaklega góðan mat og allan viðurgerning.