Tenglar

13. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Klakabrynjaðar eftirlegukindur fjarri heimahögum

Herdísarvíkur-Surtla. Sjá meginmál.
Herdísarvíkur-Surtla. Sjá meginmál.

„Þórður er höfðingi, hann kom með þær alla leið hingað heim í stofu,“ segir Tómas Sigurgeirsson (Tumi) á Reykhólum um Þórð Halldórsson í Laugarholti í Skjaldfannardal við Ísafjarðardjúp. Þórður kom í fyrradag suður yfir heiðar með fé sem hann fann í Hvannadal upp af Rauðamýri innst í Djúpi, rétt norðan við Lágadalinn þar sem vegurinn liggur upp á Steingrímsfjarðarheiði. Þetta voru sjö kindur, tvær ær og lamb frá Tuma, ær og lamb frá Jónasi Samúelssyni á Reykhólum og ær og lamb frá Helga Jóni Ólafssyni í Gufudal. „Þær voru eitt klakastykki, þær voru svo brynjaðar,“ segir Tumi. „Allt hvítt og kollótt.“

 

Að sögn Svandísar Reynisdóttur í Fremri-Gufudal fundust í síðustu viku tíu kindur á tveimur stöðum í Múlasveitinni, vestasta hluta Reykhólahrepps. Þær voru líka utan heimasveitarfélags því að fé þetta var allt vestan af Barðaströnd. Þarna var m.a. tveggja vetra hrútur sem hafði aldrei í hús komið. Sumt af þessu fé var búið að sjást við Skálmardal í Múlasveit öðru hvoru í haust en hinn hlutinn var í Vattarfirðinum að vestanverðu. Svandís segir að búið hafi verið að fara einn leiðangur að leita að fénu í Skálmardalnum en án árangurs. Núna fannst það við Skálmardalsbæinn gamla.

 

„Nei, nema hvað við erum farin að meta rokið eftir allan storminn undanfarnar vikur,“ segir Svandís, aðspurð hvort fleira sé tíðinda úr Gufudalssveitinni.

 

„Þetta er ekki slæmur nágranni,“ segir Tumi á Reykhólum um Þórð í Laugarholti.

 

- Nágranni?

 

Þess má geta, að bein loftlína milli Laugarholts í Skjaldfannardal og Reykhóla er um 65 kílómetrar. Leiðin sjálf er miklu lengri og um erfiða fjallvegi að fara; auk þess hafa færð og veður verið með allra versta og ótryggasta móti að undanförnu.

 

„Já, við smölum saman í Djúpinu á haustin, féð héðan er farið að ganga svo mikið norður í Djúp,“ segir Tumi.

 

Ærin á myndinni er hvorki hvít né kollótt eins og féð úr Hvannadalnum. Þetta er Herdísarvíkur-Surtla, frægasta útigangskind hérlendis, sem að lokum var skotin á færi fyrir meira en sextíu árum. Höfuð Surtlu er í eigu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31