Kom á ný með badmintonspaða að gjöf
Guðjón Dalkvist Gunnarsson á Reykhólum, betur þekktur sem Dalli, kom færandi hendi í Reykhólaskóla fyrir skömmu. Að þessu sinni kom hann með badmintonspaða handa nemendum í fjórða bekk en á liðnu vori gaf hann nemendum í 4.-10. bekk spaða. Formlegur gefandi er raunar áburðarvökvinn Glæðir sem Dalli framleiðir en ekki hann sjálfur persónulega. Þá kvaðst hann stefna að því að fjórðubekkingar í skólanum hverju sinni fengu spaða. Eða eins og haft var eftir honum hér á vefnum:
„Þegar ég keypti spaðana hjá TBR [Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur] var mér tjáð, að þeir gæfu fjórðubekkingum sams konar spaða ár hvert. Við Kolfinna [íþróttakennari á Reykhólum] ákváðum að stefna að því sama hér, þ.e. að Glæðir gæfi fjórðubekkingum spaða næstu ár.“
„Dalli trúir því og við trúum því líka, að í hópnum leynist snillingar á þessu sviði,“ segir Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir íþróttakennari, sem sendi vefnum myndina sem hér fylgir.
► 22.05.2013 Geta ekki verið ungar Rögnur og ungir Broddar hér?
► Glæðir