Komið hugmyndum ykkar á framfæri
Tilskrif: „Mér var að detta í hug hvort væri ekki sniðugt að hafa hugmyndabanka á Reykhólavefnum þar sem fólk gæti komið hugmyndum sínum á framfæri. Þetta er notað í sumum fyrirtækjum þar sem fólk getur skrifað niður allt sem má betur fara og komið með lausnir á vandamálum. Vestfirðir voru í fimmta sæti yfir áhugaverða staði úti í heimi sem fólk vill heimsækja og þá væri nú sniðugt að nýta sér það. Fólk sem býr hér lumar kannski á snilldarlausnum til að trekkja að ferðamanninn og bara gera samfélagið okkar ennþá betra til að búa í. Þetta myndi stuðla að jákvæðum hugsanagangi og fólk myndi vera meðvitaðara um samfélagið sem það býr í“, segir Hlynur Stefánsson á Reykhólum í pósti til umsjónarmanns þessa vefjar.
Það verður að teljast ákaflega góð tillaga að fólk komi hugmyndum sínum á framfæri hér á vefnum. Spurningin er hins vegar hvaða hátt ætti að hafa á slíku til að athygli veki og hvort stofna skuli sérstakan undirvef. Áður en lengra er haldið er niðurstaðan sú (hún gæti breyst), að líklega sé einna heppilegast að slíkt kæmi á undirvefinn Sjónarmið / Aðsendar greinar (valmynd vinstra megin) en jafnframt yrði á sjálfum fréttavefnum vakin athygli á því sem þar birtist og vísað þar inn.
Á meðan þetta er melt er fólkið í Reykhólahreppi, sem og þeir fjölmörgu aðrir sem bera hag héraðsins fyrir brjósti, eindregið hvatt til að senda vefnum tilskrif um allt sem á hugann leitar í þessum efnum - eða öðrum - netfangið er vefstjori@reykholar.is. Ekki þarf að hafa minnstu áhyggjur af innsláttarvillum eða frágangi yfirleitt. Ef einhver þörf gerist verður það lagað umyrðalaust fyrir birtingu. Helst þyrfti andlitsmynd að fylgja ef hún er til í tölvunni en það er vissulega ekki alveg nauðsynlegt.
Myndina tók Árni Geirsson á svifvæng yfir Reykhólasveit.
Ásta Sjöfn, fimmtudagur 20 janar kl: 19:57
Mér finnst þetta vera frábær hugmynd hjá Hlyn! Staðreyndin er sú að hér býr fábært og hugmyndaríkt fólk og við eigum að reyna að virkja þann auð sem við eigum.