Könnun á atvinnuhorfum á Vestfjörðum
Vinnumálastofnun á Vestfjörðum og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða standa nú fyrir könnun á atvinnuhorfum á Vestfjörðum. Könnunin er svipuð og sú könnun sem Samtök atvinnulífsins stóðu að meðal vinnuveitenda á landsvísu fyrir skömmu. Könnunin nú er sérstaklega gerð fyrir Vestfirði enda var svarhlutfall könnunar SA með þeim hætti, að ekki var hægt að álykta um einstök landsvæði eða atvinnugreinar þó að hún gæfi góðar vísbendingar um þróun á innlendum vinnumarkaði almennt. Um er að ræða símakönnun og hefur verið ráðinn starfsmaður til að starfa að þessu verkefni tímabundið.
Miklar sviptingar eru í atvinnulífinu um þessar mundir í kjölfar fjármálakreppunnar, einkum á þeim svæðum sem búið hafa við mikla þenslu, en minna er vitað um áhrif hennar á önnur svæði á allra næstu mánuðum. Er könnunin nú gerð til að fá betri mynd af atvinnuhorfum í fjórðungnum til að unnt verði að skipuleggja betri og markvissari úrræði við þeim breytingum sem kunna að eiga sér stað.
Það von að Vinnumálastofnunar og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, að vinnuveitendur bregðist jákvætt við verkefninu og taki sér tíma til að svara spyrlum þegar til þeirra verður leitað, svo að skýrari mynd fáist af atvinnuhorfum á svæðinu.
(Frá Guðrúnu Stellu Gissurardóttur / Vinnumálastofnun á Vestfjörðum).