Konur mikill meirihluti nemenda hjá FRMST
Starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða (FRMST) efldist mjög milli áranna 2010 og 2011. Á síðasta ári voru kenndar 4.739 stundir en þær voru 3.516 á árinu 2010. Nemendastundir voru um 50.000 en um 41.000 árið áður og komu þar við sögu um 15% af íbúum Vestfjarða 21 árs og eldri. Reykhólahreppur var vel undir þessu meðaltali og raunar voru öll póstnúmerasvæði undir því nema 425 – Önundarfjörður ásamt Flateyri, þar sem þátttakan var 34%. Konur voru 68% og karlar 32%. Algengasti aldurshópurinn var 45-54 ára.
Þetta kemur fram í skýrslu (fréttatilkynningu) frá FRMST en aðalfundur fulltrúaráðs miðstöðvarinnar var haldinn í síðustu viku.
Samanlagður fjöldi nemenda (þátttakenda) hjá FRMST á síðasta ári var 1.128 og alls komu 736 manns við sögu á námskeiðum. Eftir flokkum skiptist námið þannig, að í flokknum almenn námskeið, sem felur í sér tómstundanám og endurmenntun, voru 722 kennslustundir (15%), í íslensku fyrir útlendinga voru 820 kennslustundir (17%) og í réttindanámi og öðru vottuðu námi voru 3.207 kennslustundir (68%).
Á árinu 2011 veitti FRMST 451 viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa og voru konur 47% en karlar 53% viðmælenda. Árið 2010 var fjöldi viðtala 472.
Fræðslumiðstöð Vestfjarða rekur starfsstöðvar á Hólmavík, Ísafirði og Patreksfirði. Hjá henni starfa 9 manns í rúmlega 6 stöðugildum.
Forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er Smári Haraldsson.
Starfsskýrsla FRMST í heild (pdf) - tvær síður, flettið niður.