Konur úr héruðum Breiðafjarðar í nýrri bók
Sigríður fór ung utan til Danmerkur á húsmæðraskóla með umráði Jóns Sigurðssonar og nam síðan mjólkurvinnslu á Jótlandi og hefur líklega verið fyrsti íslenski mjólkurfræðingurinn. Þá menntun flutti hún til Íslands og réð sig í vistir á Austfjörðum með miklum örlögum.
Sigríður Kristrún Guðjónsdóttir var annað þeirra barna sem Halldór Kiljan Laxness minntist í bænum sínum þegar hann var kominn í klaustrið í Lúxembúrg árið 1922. Kom þetta fram í bókinni Dagar hjá múnkum sem út kom árið 1987. Sigríður eða Sigga Gau eins og hún var jafnan kölluð var alin upp í Svínanesseli í Múlasveit til tólf ára aldurs eða svo ásamt Guðrúnu systur sinni, en þær voru fæddar í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp. Ekki er með öllu ljóst hvernig skilgreina má þann búskap sem stundaður var í Svínanesseli þar sem stundum var ekki annað matarkyns en lognaður selur í pækli. Konurnar í Selinu voru aðventistar út yfir gröf og dauða og söng aðventistaprestur að sunnan yfir Siggu Gau í Bolungarvík ásamt séra Agnesi við útför hennar þegar yfir lauk.
Kiljan gisti Svínanessel þegar hann var þarna í för með séra Halldóri Kolbeins og sagði í útvarpsviðtali árið 1964, að Selið hafi alltaf verið fyrirmyndin að Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki. Austfirðingar hafa alltaf eignað sér Sumarhús, en skáldið kvað skýrt upp úr með þetta. Kitti í Seli var aftur á móti ekki fyrirmyndin að Bjarti, meinhægur maður sem lifði meira og minna á bónbjörgum, ólíkt Bjarti. Niðurstaðan er því sú, að Svínanessel endaði með því að verða sögusvið Nóbelsverðlauna 1955. Svona var nú það.
Þriðja konan frá Breiðafirði er Ingibjörg Júlíana Júlíusdóttir á Melanesi á Rauðasandi. Er vikið að haustverkum Ingibjargar og mjölnotkun hennar á þeim alkunna ársgrundvelli. Á haust gerði hún mat innan úr 80-90 dilkum, sem slátrað var á Hvalskeri við Patreksfjörð. Kornvaran sem nýtt var á Melanesi á ári hverju slagaði upp í heilt tonn. Bakstur, rúgmjöl í lifrarpylsu og korn í graut. Þessu hefur Ari Ívarsson sonur hennar haldið til haga skv. úttektarnótum. Er með ólíkindum sá þrældómur sem lagðist á Ingibjörgu einsamla yfirleitt og var svo um fleiri bændakonur á öndverðri 20. öld og fram eftir þeirri sömu öld.