Tenglar

6. desember 2010 |

Konur úr héruðum Breiðafjarðar í nýrri bók

Meðal bóka sem Vestfirska forlagið gefur út að þessu sinni er rit sem heitir Vestfirskar konur í blíðu og stríðu. Útvarpsmaðurinn gamalkunni Finnbogi Hermannsson í Hnífsdal tók saman. Þarna eru á ferðinni tólf konur og þar af þrjár sem með einum eða öðrum hætti eru tengdar Breiðafirði. Sigríður Magnúsdóttir úr Skáleyjum er þeirra elst, fædd árið 1833. Hlaut auknefnið stórráða, enda stórráð með afbrigðum. Játvarður Jökull Júlíusson á Miðjanesi í Reykhólasveit skrifaði bók með þessu nafni á sínum tíma og í henni er líka langt mál um ættir Breiðfirðinga og aldarhátt. Er sótt til Játvarðar og fleiri fræðimanna sem fjölluðu um Sigríði.

Sigríður fór ung utan til Danmerkur á húsmæðraskóla með umráði Jóns Sigurðssonar og nam síðan mjólkurvinnslu á Jótlandi og hefur líklega verið fyrsti íslenski mjólkurfræðingurinn. Þá menntun flutti hún til Íslands og réð sig í vistir á Austfjörðum með miklum örlögum.

 

Sigríður Kristrún Guðjónsdóttir var annað þeirra barna sem Halldór Kiljan Laxness minntist í bænum sínum þegar hann var kominn í klaustrið í Lúxembúrg árið 1922. Kom þetta fram í bókinni Dagar hjá múnkum sem út kom árið 1987. Sigríður eða Sigga Gau eins og hún var jafnan kölluð var alin upp í Svínanesseli í Múlasveit til tólf ára aldurs eða svo ásamt Guðrúnu systur sinni, en þær voru fæddar í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp. Ekki er með öllu ljóst hvernig skilgreina má þann búskap sem stundaður var í Svínanesseli þar sem stundum var ekki annað matarkyns en lognaður selur í pækli. Konurnar í Selinu voru aðventistar út yfir gröf og dauða og söng aðventistaprestur að sunnan yfir Siggu Gau í Bolungarvík ásamt séra Agnesi við útför hennar þegar yfir lauk.

 

Kiljan gisti Svínanessel þegar hann var þarna í för með séra Halldóri Kolbeins og sagði í útvarpsviðtali árið 1964, að Selið hafi alltaf verið fyrirmyndin að Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki. Austfirðingar hafa alltaf eignað sér Sumarhús, en skáldið kvað skýrt upp úr með þetta. Kitti í Seli var aftur á móti ekki fyrirmyndin að Bjarti, meinhægur maður sem lifði meira og minna á bónbjörgum, ólíkt Bjarti. Niðurstaðan er því sú, að Svínanessel endaði með því að verða sögusvið Nóbelsverðlauna 1955. Svona var nú það.

 

Þriðja konan frá Breiðafirði er Ingibjörg Júlíana Júlíusdóttir á Melanesi á Rauðasandi. Er vikið að haustverkum Ingibjargar og mjölnotkun hennar á þeim alkunna ársgrundvelli. Á haust gerði hún mat innan úr 80-90 dilkum, sem slátrað var á Hvalskeri við Patreksfjörð. Kornvaran sem nýtt var á Melanesi á ári hverju slagaði upp í heilt tonn. Bakstur, rúgmjöl í lifrarpylsu og korn í graut. Þessu hefur Ari Ívarsson sonur hennar haldið til haga skv. úttektarnótum. Er með ólíkindum sá þrældómur sem lagðist á Ingibjörgu einsamla yfirleitt og var svo um fleiri bændakonur á öndverðri 20. öld og fram eftir þeirri sömu öld.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31