Tenglar

21. mars 2011 |

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heimsækir Reykhóla

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Þorgerður Ingólfsdóttir söngstjóri.
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Þorgerður Ingólfsdóttir söngstjóri.
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn stofnandans Þorgerðar Ingólfsdóttur, einn af kunnustu og virtustu kórum landsins, syngur við messu í Reykhólakirkju kl. 14 á sunnudag, 27. mars. Kórinn verður þá á tónleikaferð um Vesturland og Strandir. Hann heldur tónleika í Dalabúð í Búðardal á laugardaginn kl. 17 og síðan verða almennir tónleikar í Hólmavíkurkirkju á sunnudagskvöld kl. 20. Líka verða sérstakir skólatónleikar bæði á Hólmavík og í Búðardal á mánudag. Aðgangur er ókeypis á alla tónleikana. Þetta er í fyrsta sinn sem kórinn heimsækir Búðardal, Reykhóla og Hólmavík.

 

Á efnisskránni eru íslensk og erlend tónverk, m. a. eftir Bach, Händel, Bartók, Jón Þórarinsson, Jón Ásgeirsson, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson, auk þjóðlaga frá ýmsum löndum. Efnisskráin er svo fjölbreytt að kórinn flytur ólík verk eftir því hvort um er að ræða almenna tónleika eða skólatónleika. Hljóðfæraleikarar eru meðal kórfélaga.

 

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð var stofnaður haustið árið 1967 en þá hafði Menntaskólinn við Hamrahlíð starfað eitt ár. Þorgerður Ingólfsdóttir söngstjóri stofnaði kórinn og hefur stjórnað honum alla tíð síðan. Árið 1981 bættist annar kór við tónlistarsögu MH, skipaður þeim sem voru brautskráðir en vildu síður hætta að vinna með Þorgerði. Sá kór nefnist Hamrahlíðarkórinn til aðgreiningar frá nemendakórnum.

 

Kvenfélagið Katla í Reykhólahreppi sér um að matreiða hádegismat fyrir gestina, alls áttatíu manns.

 

Um þessar mundir er Kór Menntaskólans við Hamrahlíð skipaður 87 nemendum á aldrinum frá sextán ára til tvítugs. Fararstjórar eru Lárus H. Bjarnason rektor MH og Jóhann Ingólfsson kennari.

 

Vegna þess að messan á Reykhólum er kl. 14 á sunnudag fellur áður áformuð helgistund á Dvalarheimilinu Barmahlíð niður.

 

Athugasemdir

Maria, laugardagur 26 mars kl: 01:22

mig langar að ná sambandi við þogerði Ingólfsdóttur,best ef ég get fengið netfang hjá henni,
bestu kv. maría

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30