Tenglar

22. apríl 2009 |

Kortleggur rannsóknastaði Snæbjarnar í Hergilsey

Úr Hergilsey. Mynd fengin af vef Breiðafjarðarnefndar.
Úr Hergilsey. Mynd fengin af vef Breiðafjarðarnefndar.

Óskar Leifur Arnarsson fornleifafræðingur ætlar að kortleggja rannsóknastaði Snæbjarnar Kristjánssonar í Hergilsey, sem gróf og rannsakaði fornar minjar víða við norðanverðan Breiðafjörð undir lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar. Áhugi Snæbjarnar sneri aðallega að heiðnum gröfum og var hann m.a. fyrstur til að rannsaka kumlateiginn í Berufirði í Reykhólasveit, sem er einn stærsti heiðni grafreitur á Íslandi. Meðal annarra staða sem Snæbjörn gróf á má nefna Hergilsey, Brjánslæk og Svínanes. Staðsetning sumra þeirra staða sem Snæbjörn í Hergilsey rannsakaði er þekkt en annarra ekki og er ætlunin að staðsetja og kortleggja þá alla með yfirborðsathugunum og kanna tengsl þeirra við umhverfi sitt.

Verkefni Óskars byggist á lokaritgerð hans í Háskóla Íslands. Til verksins fékk hann 270 þúsund króna styrk úr Fornleifasjóði.

 

Óskar er uppalinn á Reykhólum og á ættir sínar að rekja á svæðið. Hann hefur verið að vinna að ýmsu þar í tengslum við menntun sína og hefur mikinn áhuga á þessu landsvæði, þ.e. Breiðafirði og Vestfjörðum. Upp á síðkastið hefur hann verið að kortleggja örnefni á loftmyndir í Reykhólahreppi, ásamt skráningu fornleifa. Meðal samstarfsaðila má nefna Breiðafjarðarnefnd, Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar og Náttúrustofu Vestfjarða.

 

Um 7,6 milljónum króna var úthlutað úr Fornleifasjóði til fjögurra vestfirskra verkefna af þeim 22 milljónum sem alls var úthlutað úr sjóðnum fyrir árið 2009 eða liðlega þriðjungi af heildarúthlutuninni. Umsóknir um styrki úr Fornleifasjóði að þessu sinni bárust frá 45 aðilum að upphæð 87,4 milljónir króna. Samþykktir voru styrkir til 14 aðila.

 

Fornleifastofnun Íslands og Háskóli Íslands ásamt samstarfsaðilum fengu annan af tveimur hæstu styrkjunum vegna fornleifarannsókna í Vatnsfirði við Djúp eða 3,3 milljónir króna. Frá sumrinu 2003 hefur farið þar fram bæði uppgröftur og fornleifaskráning. Rannsóknirnar hafa m.a. leitt í ljós mannvistarleifar allt frá 10. öld til okkar daga á tveimur meginsvæðum í túninu. Skáli frá víkingatímanum hefur verið grafinn upp, auk smiðju og annarra smáhýsa. Síðan árið 2005 hefur verið rekinn fornleifaskóli í Vatnsfirði og er hann starfræktur samhliða uppgreftri í júlímánuði. Í skólann koma nemendur víðs vegar úr heiminum og læra uppgraftartækni undir leiðsögn íslenskra og erlendra sérfræðinga.

 

Næsthæsta styrkinn hlaut Strandagaldur fyrir rannsóknir vegna hvalveiða útlendinga við Ísland. Um er að ræða framhaldsstyrk upp á 2,8 milljónir. Rannsóknin á hvalstöðinni í Steingrímsfirði er einstök í íslenskum fornleifarannsóknum þar eð rannsakaðar eru minjar sem litlar eða engar heimildir eru til um. Einnig er það einstakt í íslensku samhengi að fundist hafi minjar um búsetu erlendra hvalveiðimanna á Íslandi frá 17. öld. Hvergi í rituðum heimildum er minnst á að erlendir hvalveiðimenn hafi byggt hvalveiðistöð í landi og stundað þar lýsisbræðslu í nokkra áratugi.

 

Loks hlaut Margrét Hermanns Auðardóttir fornleifafræðingur 1,2 miljóna króna styrk vegna fornleifakönnunar í Ögri við Ísafjarðardjúp.

 
Snæbjörn í Hergilsey

 

Snæbjörn Kristjánsson (1854-1938) var lengst af bóndi í Hergilsey á Breiðafirði og var jafnframt hreppstjóri í Flateyjarhreppi (sem nú er hluti Reykhólahrepps hins nýja) um fimmtíu ára skeið. Ýmsum fleiri trúnaðarstörfum gegndi hann fyrir samfélag sitt. Jafnframt búskapnum stundaði Snæbjörn sjóinn manna fastast og varð maður þjóðkunnur. Þótti hann á sinni tíð einn besti og fræknasti formaður í Breiðaflóa (eins og hann sjálfur nefndi Breiðafjörð iðulega) og þótt víðar væri leitað. Á efri árum ritaði hann ævisögu sína, Sögu Snæbjarnar í Hergilsey. Ber hún vitni frásagnargáfu hans og ritfærni, auk þess sem hún geymir ómetanlegan fróðleik um mannlífið í Breiðafjarðareyjum. Þess má geta, að Snæbjörn í Hergilsey var langafi Eiríks Snæbjörnssonar sem nú býr á Stað á Reykjanesi, en hann á sæti í Breiðafjarðarnefnd. Ólína dóttir Snæbjarnar í Hergilsey giftist séra Jóni Þorvaldssyni á Stað, en þau voru foreldrar Snæbjarnar, föður Eiríks á Stað.
 

Fornleifasjóður

Vefur Breiðafjarðarnefndar

 

Athugasemdir

Guðjón D Gunnarsson, mivikudagur 22 aprl kl: 12:40

Mig langar að beina þeirri tillögu til Óskars, ( og annarra sem áhuga hafa ) að hann safni og skrái miðin sem notuð hafa verið til skamms tíma, við siglingar um "refilstigu" Breiðafjarðar. Enn eru lifandi þó nokkrir, sem lærðu þessi mið í uppvextinum, en þeim fer óðum fækkandi.

Gunnar Sveinsson, Eyjólfshús í Flatey, mivikudagur 22 aprl kl: 17:05

Ég vil fagna því að kortleggja eigi "rannsóknarstaði Snæbjarnar Kristjánssonar í Hergilsey". Ég sem ritstjóri Símaskrá Flateyjar sagði frá fyrirhuguðum fornleifagreftri í Flatey og Hergilsey sem fyrirhugað var að framkvæma síðasta sumar en frestaðist fram á sumarið 2009 í síðustu símaskrá okkar 2008. Jafnframt vil ég taka heilshugar undir tillögu Guðjóns D. Gunnarssonar um að Óskar hugi að söfnun og skráningu miða og/eða fiskislóða. Við fjölluðum um þetta í Símaskrá Flateyjar 2008 undir fyrirsögninni "Söfnun lúðumiða og fiskislóða" en þar stendur "Fiskveiðar hafa jafnan verið stór hluti af mannlífi Flateyinga í gegnum aldirnar og eru enn fyrir húseigendur í Flatey og gesti þeirra. Sú tilhugsun að fá lúðu á krókinn kitlar jafnan sérhvern veiðimann en ósjaldan hefur sá hinn sami komið heim "með öngulinn í rassinum" hvað þetta varðar. ....... Síðan er talað um að ákveðnir aðilar í Flatey eru hafsjór af fróðleik um lúðumið, fiskislóðir og önnur mið við Flatey og nálægar eyjar. Að síðustu er bent á skýrsluna "Örnefni í sjó á Breiðafirði" sem hefur að geyma upplýsingar um fiskimið. Ég vil óska Óskari góðs gengis í þessu verðuga verkefni í Hergilsey í sumar en hvet hann til að íhuga þessa söfnun miða og fiskimiða jafnframt.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30