Kosið um Vef ársins - Norðursalt í úrslitum
Vefur Norðursalts (Norður & Co.) á Reykhólum er einn fimm vefja sem keppa um NEXPO-verðlaunin fyrir Vef ársins 2013. Dómnefnd valdi vefina fimm og núna stendur yfir netkosning meðal almennings til að velja þann besta. Fyrir utan aðalverðlaunin fyrir Vef ársins er keppt í nokkrum undirflokkum. Í aðalflokknum eru auk Norðursalts í úrslitum Haraldur Þorleifsson, Nikita, Landsvirkjun og Tryggingamiðstöðin. Vefur Norðursalts var líka meðal fimm vefja í úrslitum í tveimur flokkum þegar Íslensku vefverðlaunin voru veitt í síðasta mánuði, annars vegar sem Besti fyrirtækjavefurinn (lítil og meðalstór fyrirtæki) og hins vegar sem Frumlegasti vefurinn.
Markmið NEXPO er að hampa því sem vel er gert í vef- og markaðsgeiranum og gefa því verðskuldað klapp á bakið. Núna er spurningin hvort litla fyrirtækið á Reykhólum hlýtur verðlaunin fyrir Vef ársins. Þar skiptir þátttakan í kosningunni öllu máli ásamt deilingu og hvatningu til annarra.
Smellið hér til að taka þátt í kosningunni. Hún stendur til 13. febrúar en afhending verðlaunanna fer fram á NEXPO verðlaunahátíðinni í Bíó Paradís í Reykjavík kvöldið eftir.
Vegna þeirrar miklu viðurkenningar felst í því að vefur Norðursalts skuli hafa komist í úrslit í þremur flokkum hjá Íslensku vefverðlaununum og NEXPO-verðlaununum segir Garðar Stefánsson hjá Norðursalti:
Við leggjum mikið upp úr því að endurspegla sýn og ímynd fyrirtækisins á veraldarvefnum. Með þessu viljum við deila gegnum netið þeim náttúrugæðum sem Reykhólar státa af og jafnframt þeirri staðreynd að Reykhólasveitin er fallegasta hérað landsins. Við erum heppnir að búa til saltið í slíkri náttúru og á svona frábærum stað þar sem náttúrukrafturinn býr líka í fólkinu sjálfu.
► Vefur Norðursalts á Reykhólum
Bjorg Karlsdottir, laugardagur 08 febrar kl: 11:15
koma svo allir saman nú