Tenglar

22. desember 2015 |

Kötlukonur vinna fyrir miklu fé til samfélagsmála

Ein myndanna í dagatalinu fyrir 2016.
Ein myndanna í dagatalinu fyrir 2016.

Stundum á fyrri tíð héldu sumir karlar, man ég var, að kvenfélög væru klúbbar þar sem konur sætu bara með prjónana og drykkju kaffi og kjöftuðu um náungann. Gott ef það kom ekki fyrir að þeir fyndu til afbrýðisemi og höfnunarkenndar. En trúlega var ekkert hæft í slíku hjá þeim.

 

Svo vill til, að sá er þetta skrifar fylgist nokkuð vel með starfinu í Kvenfélaginu Kötlu í Reykhólahreppi, eini karlinn með aðgang að lokuðum hópi þess á Facebook. - Er það ekki annars næsta stigið á undan því að verða fullgildur félagi? Varla hægt að segja félagskona í þessu tilviki ...

 

Það blasir við að starfið í Kvenfélaginu Kötlu er mikið og gott og vafalaust er líka svo í öðrum kvenfélögum.

 

Núna þegar árið er í þann mund að líða í aldanna skaut og nýtt að ganga í garð hugðist umsjónarmaður þessa vefjar minna á dagatalið sem Kötlukonur gefa út ár hvert. En - dagatalið fyrir árið 2016 reyndist þá nánast uppselt og því ástæðulítið að minna á það. Þá lifnaði í staðinn önnur hugmynd: Að segja undan og ofan af starfi félagsins.

 

Salan á dagatalinu gefur að vísu ekki mikið af sér. En það sem inn kemur samt að frádregnum prentkostnaði rennur til Reykhólaskóla og Dvalarheimilisins Barmahlíðar, stóru stofnananna tveggja sem sveitarfélagið rekur og sinna báðum endunum á lífsleiðinni, ef svo má segja. Afraksturinn er þá inni í öðrum fjármunum sem kvenfélagið ver í þágu skólans og heimilisins.

 

Á þessu ári hefur félagið gefið skólanum hrærivél og leikskóladeildinni iPad að hálfu á móti foreldrafélaginu. Bókasafn skólans fékk nýja Íslandsatlasinn sem óskað var eftir og nýtist nemendum og starfsfólki einkar vel. Dvalarheimilið Barmahlíð fékk sjúkrarúm. Þetta eru gjafir upp á samtals rétt um hálfa milljón króna, bara á þessu ári. Líka hefur styður félagið Björgunarsveitina Heimamenn í Reykhólahreppi til kaupa á björgunarbát núna í ár, en eftir er að afhenda peningagjöfina.

 

Gegnum tíðina hefur félagið styrkt ýmsa sem á því þurfa að halda af einhverjum ástæðum, en aldrei er gefið upp frekar en hjá frímúrurum hvað þar er um að ræða. Ár hvert heldur félagið veglegt jólaball með kaffihlaðborði, jólasveinum, jólasveinanammipoka og mandarínu, gestunum að kostnaðarlausu.

 

Fjárins aflar kvenfélagið með ýmsum hætti fyrir utan söluna á dagatalinu. Konurnar sjá um veitingar við ýmis tækifæri, svo sem í erfisdrykkjum og öðrum kaffisamsætum. Slíku fylgir mikil vinna: Skipulagning, innkaup, bakstur og annar undirbúningur, vinna á staðnum, frágangur og fleira og fleira. Þetta árið sá félagið líka um hátíðahöldin 17. júní ásamt Hótel Bjarkalundi og var meðal þeirra sem stóðu að jólamarkaðinum í Króksfjarðarnesi í lok nóvember.

 

Til að verðlauna sig fyrir alla vinnuna fara konurnar árlega saman í ferð, innanlands eða til útlanda, og nota í því skyni einhvern afgang af peningunum sem þær hafa halað inn. Þær segja að þessar ferðir séu þeim ómetanlegar, bæði samveran og andleg upplyfting.

 

Stjórn Kvenfélagsins Kötlu skipa nú um stundir þær Áslaug Berta Guttormsdóttir, Svanhildur Sigurðardóttir og Steinunn Ólafía Rasmus.

 

h

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31