Tenglar

27. apríl 2010 |

Kræklingaræktin lofar mjög góðu

Kræklingaræktin er loks eftir tíu ára þróunarstarf farin að skila stórum peningum, segja ráðamenn Norðurskeljar í Hrísey, sem flytja nú meira út í hverri viku en þeir gerðu allt árið í fyrra og hafa ekki undan pöntunum. Meðal sprotaverkefna í Reykhólahreppi er einmitt kræklingarækt og Bergsveinn á Gróustöðum í Reykhólahreppi hefur stundað hana undanfarin ár. Fréttir hafa borist af honum við kræklingsveiðar í Hvalfirði.

 

Hjá Norðurskel byrjuðu menn fyrir áratug að prófa sig áfram með kræklingarækt og þeir eru komnir lengst allra hérlendis í þessari nýju atvinnugrein, sem virðist lofa mjög góðu. Fyrirtækið er nú búið að setja upp vinnslu í Hrísey og kaupa tvo nýja báta. Átta manns eru komnir í vinnu og nauðsynlegt að ráða fleiri því það er brjálað að gera, að sögn Gísla Rúnars Víðissonar vinnslustjóra.

 

Kræklingurinn, eða bláskelin, er fluttur lifandi út í skelinni til kaupenda með skipum og flugvélum. Milli 2.500 og 3.000 kíló fara nú út í hverri viku, aðallega til Belgíu, en kaupandi þar vill fá 6.000 kíló á viku, þannig að Norðurskel annar hvergi nærri eftirspurn.

 

„Þetta þýðir að peningarnir streyma inn, við erum rétt að byrja núna að sjá stóra peninga", segir Gísli Rúnar, en tekur fram að það sé loks að gerast eftir tíu ára þróunarstarf. Fjöldi annarra aðila víða um land, sem einnig eru komnir af stað, hafa leitað ráðgjafar hjá Norðurskel og er því spáð að kræklingarækt geti á næstu árum skapað mörg hundruð ný störf hérlendis.

 

Að mestu eftir visir.is

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31