Tenglar

12. ágúst 2010 |

Kræklingaverksmiðja komin í Reykhólahrepp

Bergsveinn Reynisson bíður rólegur meðan Bona Safir leggst að bryggjunni.
Bergsveinn Reynisson bíður rólegur meðan Bona Safir leggst að bryggjunni.
1 af 3
Flutningaskipið Bona Safir lagðist að bryggju í Reykhólahöfn í fyrrakvöld. Erindið var að lesta þörungamjöl til útflutnings. Skipið er í eigu sama fyrirtækis og á Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum, sem stendur rétt við Reykhólahöfn. Það er að jafnaði notað sem þaraflutningaskip á vesturströnd Noregs. Bergsveinn Reynisson á Gróustöðum fékk að nota ferð skipsins frá Noregi og í lestinni var að heita má heil verksmiðja til ræktunar og vinnslu á kræklingi. Til að vinna við búning verksmiðjunnar til flutnings fór Jón Ingiberg sonur Bergsveins til Noregs um daginn. Eins og Bergsveinn segir: „Hann var úti í Noregi um verslunarmannahelgina á meðan aðrir voru úti í Vestmannaeyjum.“ Bergsveinn Reynisson hefur lagt stund á kræklingarækt frá 2007, aðallega í Króksfirði en einnig í Gilsfirði.

 

„Þetta byrjaði nú allt með því að ég var að leita mér að hagkvæmum búnaði til uppskeru og sokkunar á kræklingi“, segir Bergsveinn. „Sævar bróðir minn sem er búsettur úti í Noregi fór að leita að þessum búnaði fyrir mig þar ef hægt væri einhvers staðar að fá þetta notað. Hann fann kræklingafyrirtæki sem var hætt rekstri og þar voru einnig vélar til að hreinsa og stærðarflokka kræklinginn og margvíslegur annar búnaður til rekstursins, svo sem ræktunarlínur. Fyrst að þetta fékkst með, þá tók hann það bara líka.

 

Núna til að byrja með verður þetta sett í Króksfjarðarnes. En við erum ekki komin með neina viðskiptaáætlun og vitum ekki alveg ennþá hvað við ætlum að gera við þetta allt saman.“

 

Bergsveinn segir að komið hafi í ljós að óhemjudýrt væri að flytja allan þennan búnað hingað, en þá gafst kostur á því að nota ferð flutningaskipsins til Reykhóla. „Þeir voru alveg til í að kippa þessu með fyrir ekkert skelfilega stórar upphæðir.“

 

Meðal þess sem með fylgdi voru um þrjú hundruð risastór flotholt. „Ef við skyldum einhvern tímann búa til svona fimm hundruð metra göngubrú út í sjó eða flotbryggju, þá er til efni í hana.“

 

Bergsveinn tekur fram að það sé í rauninni Sævar bróðir hans í Noregi sem hafi keypt búnaðinn. „Við erum að þessu í samvinnu en hann borgar allavega. Eða eins og konan hans sagði: Ef þú vilt eyða peningunum í svona vitleysu, þá er það allt í lagi mín vegna!“

 

Athugasemdir

Steinunn Ó. Rasmus, fimmtudagur 12 gst kl: 12:58

Líst vel á þetta hjá þér Beggi, haltu bara áfram.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31