„Krafa fundarins að ríkisvaldið virði skyldur sínar“
Í lok fundarins lagði Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar fram tillögu aðgerðahópsins að ályktun. Var hún samþykkt einróma og fer hún hér á eftir í heild:
„Almennur borgarafundur, haldinn á Ísafirði laugardaginn 28. nóvember 2009, fagnar nýfengnum samgöngubótum á Vestfjörðum, í Ísafjarðardjúpi og um Þröskulda. Framundan er bylting í samgönguöryggi með jarðgöngum til Bolungarvíkur. Fundurinn hvetur stjórnvöld til þess að hvika ekki frá markaðri stefnu um uppbyggingu Vestfjarðavegar í Barðastrandarsýslu og ætlast til þess að frestaðar fjárveitingar til framkvæmda verði til reiðu þegar að frekari framkvæmdum kemur á Vestfjarðavegi 60.
Það er eindregin skoðun fundarmanna að næsta stórverkefni verði að opna heilsárveg milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða og að það sé eðlilegt framhald af uppbyggingu Vestfjarðavegar í Barðastrandarsýslu. Aðstæður allar kalla á leiðina ÁFRAM VESTUR hvort heldur er að vestan til Ísafjarðardjúps eða þaðan og áfram vestur. Staða byggðar á Vestfjörðum hefur veikst verulega undanfarin ár.
Stækkun atvinnu- og samgöngusvæðisins með Dýrafjarðargöngum og heils árs öruggum samgöngum milli svæðanna er áhrifamikil aðgerð, sem gerir Vestfirðingum kleift að snúa vörn í sókn á fjölmörgum sviðum. Mikilvægt er að á næstu árum verði áfram unnið að undirbúningi annarra brýnna verkefna, en höfuðáhersla er nú lögð á samtengingu svæðanna.
Heils árs öruggar samgöngur eru grundvöllur nútímasamfélags ekki síður en aðgangur að heilbrigðisþjónustu og réttindum velferðarþjóðfélagsins. Það er óþolandi að Vestfirðingar skuli hafa verið án þessara réttinda áratugum lengur en flestir aðrir þegnar þjóðfélagsins. Við það verður ekki unað lengur að lítilsvirða grundvallarþörf á þessu sviði. Það er krafa fundarins að ríkisvaldið virði skyldur sínar og ráðist í ofangreindar framkvæmdir samkvæmt fyrirliggjandi stefnu Alþingis.
Almennur borgarafundur á Ísafirði lýsir skilningi á erfðri stöðu þjóðarbúsins eftir hrun helstu fjármálafyrirtækja landsins og fundarmenn eru tilbúnir til þess að taka þátt í erfiðu endurreisnarstarfi með stjórnvöldum. En að sama skapi er þess vænst að stjórnvöld hafi ríkan skilning á stöðu Vestfirðinga og átti sig á því tjóni sem þeir hafa þegar orðið fyrir vegna skorts á sömu mannréttindum og flestir aðrir landsmenn njóta.“
Sjá einnig:
Baráttufundur um Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði