Tenglar

10. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

„Kraftur í rannsóknir á sjávarorku“

Teikning Bjarna Jónssonar af vegþverun í mynni Þorskafjarðar milli Árbæjar og Skálaness ásamt sjávarfallavirkjun.
Teikning Bjarna Jónssonar af vegþverun í mynni Þorskafjarðar milli Árbæjar og Skálaness ásamt sjávarfallavirkjun.
1 af 2

Fyrirtækið Sjávarorka ehf. í Stykkishólmi stefnir að því að koma upp tilraunavirkjun sjávarfallastrauma í Hvammsfirði innan tveggja til þriggja ára. Þetta leiðir hugann að hugmyndum um slíkar virkjanir í mynni Þorskafjarðar og í Gilsfirði, sem ítarlega hefur verið fjallað um hér á vefnum á undanförnum árum. Frá áformum Sjávarorku greinir í umfjöllun Helga Bjarnasonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag undir ofangreindri fyrirsögn.

 

Landfræðilegar aðstæður valda því, að í innanverðum Breiðafirði er mestur sjávarfallamunur hérlendis og þar er kraftur innstreymis og útstreymis þess vegna mestur.

 

Vorið 2010 varði Bjarni Jónsson meistaraprófsverkefni við Háskólasetur Vestfjarða, sem nefnist Virkjun sjávarfallaorku á Vestfjörðum. Leiðbeinandi Bjarna við verkefnið var próf. Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem núna í byrjun desember flutti erindi á fundi á Reykhólum um stofnun frumkvöðlaseturs eða tæknigarðs á Reykhólum.

 

Nokkru fyrir meistaraprófsvörnina eða í mars 2010 hélt Bjarni Jónsson mjög vel sóttan kynningarfund á Reykhólum og gerði þar grein fyrir hugmyndum um að samþætta veg og virkjun í sameiginlegu mynni Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Svokölluð A-leið fyrir Vestfjarðaveg 60 myndi liggja framhjá Reykhólum og út Reykjanes og yfir mynni Þorskafjarðar milli Árbæjar og Skálaness.

 

Ef leið A yrði fyrir valinu sem framtíðarþjóðvegur milli landshluta (með eða án sjávarfallavirkjunar í mynni Þorskafjarðar) kæmust Reykhólar í alfaraleið. Núna er 14 km útúrkrókur frá Vestfjarðavegi 60 og út að Reykhólum og yrði það áfram ef einhver önnur leið en A-leiðin yrði fyrir valinu.

 

Afl sjávarfalla hefur verið reiknað fyrir marga firði. Þar hefur komið í ljós, að hámarksafl í Dýrafirði yrði 10 MW, Mjóafirði í Djúpi 14 MW, Kolgrafafirði 50 MW og Gilsfirði 100 MW.

 

Þverun í mynni Þorskafjarðar og aðliggjandi fjarða gæfi 180 MW hámarksafl samkvæmt útreikningum Bjarna Jónssonar. Raunafl virkjunar á útfalli gæti orðið á bilinu 75-80 MW. Þarna væri um að ræða afl sem er lotubundið og útreiknanlegt og nákvæmt.

 

Með tilkomu virkjunar þar ættu áhyggjur af línuskemmdum í óveðrum á fjallvegum, jafnvel fjarlægum fjallvegum, með tilheyrandi rafmagnsleysi í Reykhólahreppi, að vera að talsverðu leyti úr sögunni.

 

Í áðurnefndri umfjöllun í Morgunblaðinu í dag, 10. janúar, segir m.a.: 

  • Hugmynd Sjávarorku byggist á svonefndum straumhverflum. Stríðir straumar á milli eyja og skerja í mynni Hvammsfjarðar yrðu virkjaðir. Slík virkjun gerir stíflugarða óþarfa og hefur hverfandi áhrif á lífríkið, að sögn Sigurjóns [Jónssonar, stjórnarformanns Sjávarorku]. Þannig á allur fiskur að komast í gegnum hverflana. 
  • Það hefur dregið úr hagkvæmni sjávarfallavirkjana að framleiðslan er sveiflukennd, fer eftir því hvernig stendur á falli. Þess vegna fæst lægra verð fyrir orkuna en úr virkjunum sem skila jafnari framleiðslu. Sigurjón segir að bæta megi upp þessa vankanta með samvinnu við eigendur vatnsaflsvirkjana. Með því að láta sjávarfallavirkjun spila á móti vatnsaflsvirkjun með miðlunarlóni megi spara vatnið í lóninu á meðan sjávarfallavirkjunin sé keyrð á fullu á fallinu og eiga þá vatnsforða til að auka framleiðslu vatnsaflsvirkjunarinnar enn frekar á liggjandanum í Breiðafirði. 
  • Sérfræðingar hafa talið nokkuð í að sjávarfallavirkjanir yrðu samkeppnisfærar í orkuverði hér á landi. Sigurjón er bjartsýnn. „Það kæmi mér ekki á óvart að þetta yrði hagkvæmt innan fimm ára. Mikil þróun er í tæknibúnaði, það ræður miklu um hagkvæmnina að búnaðurinn nýti orkuna vel og sé áreiðanlegur.“

 

Fjöldi frétta og greina um þessi mál hefur birst hér á vef Reykhólahrepps á liðnum árum. Hér fyrir neðan eru tenglar á hluta þeirra (í tímaröð að neðan) en undir sumum eru enn fleiri tenglar.

 

26.09.2011 Össur Sigurður Stefánsson: Vegagerð í Reykhólahreppi

08.09.2011 Hrefna Jónsdóttir: Vegamálin: Hugsa verður til framtíðarinnar

30.08.2011 Vegur með sjávarfallavirkjun og Reykhólar í þjóðbraut?

10.04.2011 Gæti Þorskafjarðarvirkjun annað orkuþörf Vestfjarða?

27.04.2010 Meistarapróf um virkjun sjávarfalla á Vestfjörðum

30.11.2009 180 megavatta hámarksafl frá Þorskafjarðarvirkjun

26.11.2009 Möguleikar á virkjun sjávarfalla kynntir

24.11.2009 Virkjun sjávarfalla í Breiðafirði talin vel möguleg

20.10.2009 Guðjón D. Gunnarsson: Virkjun Gilsfjarðar

28.09.2009 Jón Hjaltalín Magnússon: Tilraunavirkjanir í Gilsfirði og Mjóafirði

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31