Tenglar

10. janúar 2022 | Sveinn Ragnarsson

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir - Dídí

Útför Krist­ínar Ingi­bjargar Tóm­as­dótt­ur fór fram frá Reykhólakirkju 8. janúar.

Kristín Ingibjörg fæddist að Miðhúsum í Reykhólasveit 4. maí 1932 og ólst þar upp til sjö ára aldurs er fjölskyldan flutti að Reykhólum.For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Stein­unn Hjálm­ars­dótt­ir (1898-1990) og Tóm­as Sig­ur­geirs­son (1902-1987).

 

Albróðir Kristínar var Sigurgeir Tómasson, f. 6.11. 1933, d. 8.11. 1993, bóndi að Mávavatni á Reykhólum. Hálfsystkini Kristínar, sammæðra, voru Kristín Lilja Þórarinsdóttir, f. 12.7. 1922, d. 3.4. 2013, húsfreyja að Grund í Reykhólasveit; Þorsteinn Þórarinsson, f. 28.7. 1923, d. 15.1. 1998, járnsmiður í Reykjavík; Sigurlaug Hrefna Þórarinsdóttir, f. 27.7. 1924, d. 7.5. 2012, húsfreyja í Kópavogi; Anna Þórarinsdóttir, f. 23.8. 1925, d. 17.1. 2017, húsfreyja í Kópavogi, og Hjörtur Þórarinsson, f. 10.2. 1927, fyrrv. skólastjóri á Kleppjárnsreykjum og kennari á Selfossi.

 

Fyrri maður Kristínar var Bragi Eggertsson, f. 26.4. 1931, húsagagnasmiður. Þau skildu. Stjúpbörn Kristínar og börn Braga eru Rósa Guðný, f. 19.10. 1952, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, en maður hennar er Ómar Örn Ingólfsson verkfræðingur og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn, og Jón Eggert, f. 27.1. 1954, kennari og fyrrv. skólameistari, en kona hans er Ásta Guðnadóttir sérkennari og eiga þau þrjú börn og fimm barnabörn.

Seinni maður Kristínar var Máni Sigurjónsson, f. 28.4. 1932, organisti og fyrrv. starfsmaður hjá RÚV í 35 ár. Foreldrar hans voru hjónin Sigurjón Jónsson, f. 23.8. 1881, d. 15.5. 1965, prestur á Kirkjubæ í Hróarstungu, og Anna Sveinsdóttir, f. 28.4. 1894, d. 4.10. 1990.

 

Kristín var í farskóla í sveitinni auk þess sem hún fékk daglega tilsögn hjá móður sinni. Hún fór 16 ára í Laugaskóla í Suður-Þingeyjarsýslu og stundaði þar nám í tvo vetur, stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugum, hóf nám við Ljósmæðraskólann haustið 1954 og útskrifaðist þaðan haustið 1955, stundaði síðan framhaldsnám og námskeið í ljósmæðrafræðum við The Mother's Hospital og við Mile End Hospital í London 1959-60, við Frauenklinik Finkenau í Hamborg 1964, Rigshospital í Kaupmannahöfn sumarið 1964, Akers Sykehus í Osló 1967, Rikshospital í Osló, Söder Sjukhuset í Stokkhólmi og við Heilusverndarstöðina í Osló 1968 og við Queen Mother's Hospital í Glasgow í þrjár vikur 1970 og 1974, sem og við Sentral Sjukhuset í Malmö 1974. Hún fór jafnframt fjölda náms- og kynnisferða til Englands, Þýskalands og Norðurlandanna.

 

Kristín Ingibjörg var ljósmóðir við fæðingardeild Landspítalans frá 1955 og leysti fljótlega af sem yfirljósmóðir, var aðstoðaryfirljósmóðir 1964-68, var skipuð yfirljósmóðir og kennari við Ljósmæðraskóla Íslands 1968 auk þess sem hún kenndi læknanemum.

Kristín gegndi störfum við Landspítalann fram til ársins 1993 er hún ákvað að láta af störfum. Hún var síðan forstöðukona við Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð á Reykhólum í fjögur ár. Eftir það sinnti hún afleysingum við fæðingardeild Landspítalans, á Akureyri, á Höfn í Hornafirði, við heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Barmahlíð í Reykhólasveit. Þessum störfum sinnti hún fram yfir aldamótin.

 

Hún tók fyrst á móti barni í febrúar 1955, en 20 árum síðan hitti hún stúlkuna sem þá kom í heiminn, og var þá sjálf að fara að fæða. Síðasta barnið sem Kristín tók á móti kom í heiminn í febrúar 2005 en þá hafði hún tekið á móti börnum á hverju ári í hálfa öld. Þá var hún stolt af því að í hennar fjölskyldu eru tvisvar sinnum þrír ættliðir sem hún tók á móti.

 

Kristín var formaður Ljósmæðrafélags Íslands 1965-71, sat í undirbúningsnefnd vegna Norðurlandaþings ljósmæðra í Reykjavík 1965 og 1983 og var þá forseti þingsins, sat í kvenréttindanefnd LMFÍ 1966-72, var fulltrúi LMFÍ hjá Bandalagi kvenna í Reykjavík 1968-71 og hjá Samtökum heilbrigðisstétta um skeið frá 1978, sat í stjórnskipaðri nefnd til að vinna að lengingu og breytingum á lögum um Ljósmæðraskólann, sat í stjórn Minningarsjóðs Þuríðar Bárðardóttur um skeið frá 1980 og var formaður Starfsmannaráðs Landspítalans frá stofnun 1974-78.

 

Eins og sjá má í þessu æviágripi, þá var Kristín alla sína starfsævi að afla sér meiri þekkingar í sínu fagi auk hinnar miklu reynslu sem hún öðlaðist við ljósmóðurstörfin.

 

Kristín, eða Dídí, eins og flestir kölluðu hana, var tengd sterkum böndum við æskustöðvarnar á Reykhólum. Foreldrar hennar, Steinunn og Tómas voru bændur þar frá 1939 – 1977 og bróðursonur hennar, Tómas Sigurgeirsson, alnafni afa síns hefur búið þar síðan ásamt konu sinni, Svanhildi Sigurðardóttur. Á liðnu vori fluttu þau Dídí og Máni að Reykhólum með það fyrir augum að verja ævikvöldinu þar, en engum datt í hug að að það yrði svo stutt.

 

Dídí var frekar létt í lund og leiddi hjá sér neikvæðni og illt umtal. Hún var drífandi og vildi láta hlutina ganga. Sigurgeir bróðir hennar og frændur hennar einhverjir sögðu í spaugi að hún væri nokkuð stjórnsöm, en þannig ummæli fær oft fólk sem kærir sig ekki um að bíða eftir að hlutirnir gerist, heldur leggur sitt af mörkum til að þeir gerist.

 

Ljósubörnin hennar skipta hundruðum, á mjög breiðu aldursbili. Dídí þótti vænt um að taka á móti börnum foreldra úr Reykhólasveitinni og það er stór hópur í fjölskyldu Dídíar sem hitti hana á fyrstu andartökum ævi sinnar.

 

Fjölskyldu Dídíar eru færðar innilega samúðarkveðjur.

 

 

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31