Tenglar

29. júní 2017 | Sveinn Ragnarsson

Kristinn 90 ára í dag

1 af 2

Í dag er níræður Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal, og er þá að sinni aldursforseti Reykhólahrepps. Margir hafa notið langlífis í fjölskyldunni, móðir hans Kristín Petrea Sveinsdóttir var fædd 24. ágúst 1894 og var því 106 ára og 86 daga þegar hún lést 18. nóvember 2000. Í viðtali við Morgunblaðið tæpu ári áður sagði hún: „Lífsgleði njóttu svo lengi kostur er. Ég hef alltaf reynt að temja mér að vera kát og glöð og forðast að fara í fýlu.“

 Kristín var fædd í Skáleyjum á Breiðafirði og bjó lengi í Gufudal með manni sínum, Bergsveini Finnssyni, en að honum látnum flutti hún til Reykjavíkur. Börnin voru átta og þegar hún dó voru afkomendurnir orðnir 142. Bergsveinn Elidon Finnsson í Gufudal var nánast jafnaldra konu sinni, f. 1. október 1894, en varð ekki gamall

maður, d. 18. ágúst 1952.


Kristinn er 5. í röð systkinanna 8, og munu 6 vera á lífi. Afkomendur hans og Kristjönu Jónsdóttur konu hans, en þau skildu 1989, eru 48 þar af 25 langafabörn og munaði tæpum sólarhring að hann fengi það yngsta í afmælisgjöf núna.


Kitti í Gufudal, -flestir kunnugir þekkja hann undir því nafni- bjó þar nær 4 áratugi, fyrst í félagi við Ólaf bróður sinn. Auk búskaparins hefur hann fengist við margvísleg störf og viðfangsefni. Ungur var hann til sjós á togurum, þeir bræður gerðu út vörubíl, á honum óku þeir steypumöl til brúarsmíði á Gufudalsá o.fl. og öllu mokað á bílinn með handskóflu. Þeir fengu einhvern fyrsta traktorinn sem kom í sveitina, og unnu mikið við jarðabætur og ræktun. Kitti útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri vorið 1947, og á því 70 ára útskriftarafmæli einnig um þessar mundir.


 Alla sína tíð hefur Kitti haft brennandi áhuga á öllu sem til hagsbóta og framfara má telja, og var virkur í félagsmálum bænda. Hann var fulltrúi á fundum Stéttarsambands bænda um áratuga skeið.

Ófeiminn að benda á að til að það skili einhverju sem verið er að sýsla með, þarf að fara almennilega með það, hvort sem það er jörðin, bústofn, tæki eða byggingar, og öll verkefni sem hann hefur fengist við hefur hann lagt sig fram um að klára. Hann hefur líka verið óragur að takast á við ný viðfangsefni; þegar hann hætti búskap í Gufudal og Einar sonur hans og fjölskylda tóku við, vegna þess að Kitta fannst hann orðinn full roskinn til að standa í búskap, þá fór hann að rifja upp sjómennskuna og gera út trillu frá Suðureyri. Nokkru síðar, þegar hann var kominn á þann aldur þegar flestir eru hættir að standa í stórræðum, þá keypti hann gróðrarstöðina Garða á Reykhólum og stækkaði hana um ríflega helming strax fyrstu árin, og byggði sér íbúðarhús. Hann var fljótur að ná góðum tökum á ræktuninni og tómatar frá honum eftirsóttir fyrir bragðgæði.


Kitti býr í sinni íbúð á Reykhólum og þangað mæta nokkrir nágrannarnir í morgunkaffi, oftast daglega og þá eru heimsmálin krufin og þeir sækja fróðleik til Kitta, sem man lengra og meira en við flest.

Á ættarmóti í Gufudal árið 2009 flutti Kristinn þessa samantekt, sem er örugglega gaman fyrir kunnuga að rifja upp.


Kitta eru færðar bestu afmæliskveðjur.  

 

  

Athugasemdir

Hrafnhildur Reynisdóttir, fstudagur 30 jn kl: 11:32

Hjartanlega til hamingju frændi og hafðu það sem allra best :)

Hlynur Þór Magnússon, fstudagur 30 jn kl: 17:16

Elskulegar afmæliskveðjur, góði (gamli) frændi minn!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31