Kristsmyndin sem ákveðið var að fjarlægja
Önnur vængmynd altaristöflunnar í Gufudalskirkju þótti á sínum tíma heldur gróf og naumast heppileg yfir altarinu. Þess vegna voru báðir vængirnir teknir af og settir upp á kirkjuloft. Þeir eru enn á kórloftinu og má vel sjá þá þar án þess að klöngrast upp á loftið.
Á töflunni sjálfri er málverk af síðustu kvöldmáltíðinni og önnur vængmyndin er af Kristi með krossinn á leið sinni upp á Hausaskeljastað. Á hinni myndinni bunar blóðið úr sárum Jesú þar sem hann stendur í dreyrabikar og mun síðari tíma fólki hafa þótt óþægilegt að hafa hana stöðugt fyrir augum við athafnir í kirkjunni.
Altaristaflan var sett á sinn stað í Gufudalskirkju fyrir rétt um 300 árum. Myndefnið er barn síns tíma, eins og kallað er, og í samræmi við trúarkveðskap og boðun fyrri alda. Taflan var gerð (eða a.m.k. sett upp í kirkjunni) aðeins nokkrum áratugum eftir að höfuðskáldið séra Hallgrímur Pétursson orti Passíusálma sína (passía = píslir, þjáning) og margir aðrir ortu sálma efnislega á sama veg. Sjá hér neðst nokkur dæmi úr píslarsálmum séra Hallgríms.
Í bókinni Þar minnast fjöll og firðir - Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum, sem kom út fyrir skömmu, segir í kafla um Gufudalskirkju:
- Gripir frá Gufudal eru í Þjóðminjasafni. Enn eru gömul klukka og altaristafla í kirkjunni, gefin af sr. Daða Steindórssyni, prófasti í Otradal, Agerbjörnsen kaupmanni og fleirum á öðrum tug 18. aldar. Sr. Daði var prestur í Gufudal 1687-1707. Taflan er vængjatafla og eru myndir af endurlausnaranum Kristi og krossberanum Kristi á vængjum en kvöldmáltíðinni fyrir miðju. Einhverjum nútímamanni líkaði ekki myndefnið og voru vængirnir því teknir af töflunni fyrir fáum árum [þessi kafli í bókinni mun vera ritaður árið 2007] og komið fyrir á kirkjulofti. Taflan lýsir þó vel hugarheimi lútersks rétttrúnaðar og er því menningarsöguleg heimild. Hún var máluð upp þegar hin nýja kirkja var byggð. [...] Einnig voru áletranir á íslensku málaðar á töfluna í staðinn fyrir áletranir á dönsku.
Kirkja hefur verið í Gufudal allt frá öndverðri kristni á Íslandi og hennar getið í Kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti um 1200. Sú kirkja sem nú stendur í Gufudal var vígð árið 1908, teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara úr Dýrafirði (1874-1917), sem nefndur hefur verið fyrsti íslenski arkitektinn. Hann teiknaði m.a. kirkjurnar á Þingeyri og Bíldudal en meðal kunnustu verka hans eru Húsavíkurkirkja, Vífilsstaðaspítali og Edinborgarhúsið á Ísafirði. Listaskóli kenndur við hann (Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar) var stofnaður á Ísafirði fyrir tveimur áratugum og hefur alla tíð haft aðsetur í Edinborgarhúsinu, sem byggt var um sama leyti og kirkjan í Gufudal.
Á samsettu myndinni sem hér fylgir má sjá altaristöfluna sjálfa í miðju og vængmyndirnar til beggja hliða. Stærðarhlutföllin eru að sjálfsögðu ekki rétt. Á annarri vængmyndinni má sjá stafina INRI, forna latneska skammstöfun fyrir Iesus Nasarenus, Rex Iudaeorum, sem merkir Jesús frá Nasaret, konungur gyðinga.
Nokkrar stiklur (gætu verið mun fleiri) úr Passíusálmunum, sbr. það sem ritað er hér ofar:
Hvað stillir betur hjartans böl
en heilög drottins pína og kvöl?
Hvað heftir framar hneyksli og synd
en herrans Jesú blóðug mynd?
_______
Blóðdropar þínir, blessað sáð,
ber þann ávöxt sem heitir náð.
Þann sama guð mér sjálfur gaf.
Sáluhjálp mín þar sprettur af.
_______
Gleðstu, mín sál, mig græddi
guðs sonar heilagt blóð,
þó synd og sorgin mæddi.
Sjá, hér er lækning góð.
_______
Viltu þig þvo, þá þvo þú hreint
þel hjartans bæði ljóst og leynt.
Ein laug er þar til eðlisgóð:
iðrunartár og Jesú blóð.
_______
Hjartans innstu æðar mínar
elski, lofi, prísi þig.
En hjartablóð og benjar þínar
blessi, hressi, græði mig.
Athugasemdir, frekari upplýsingar og leiðréttingar, ef svo ber undir, eru vel þegnar, hvort heldur hér fyrir neðan eða í netfangið vefstjori@reykholar.is.
Þrymur Sveinsson, rijudagur 25 desember kl: 23:33
Ég álít hlutaðeigendur fara með offorsi þótt myndefnið sé ekki fyrir viðkvæma í krikjunni og brjóti lög þar sem Gufudalskirkja er orðin 114 ára gömul og heyrir því undir þjóðminjalög en 18 grein þjóðminjalaga 2001 nr. 107 31maí segir svo; Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Fornleifavernd ríkisins fundinn svo fljótt sem við verður komið.
Finnandi skal ekki hagga við fundinum nema nauðsynlegt sé að taka hann eða hluta hans þegar til umhirðu með því að ella væri hætta á að munir spilltust eða færu forgörðum. Ákvæði 1. mgr. taka til allra muna sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og einnig til leifa af líkömum manna og dýra sem finnast í fornum haugum, dysjum eða leiðum. Allir munir, sem grein þessi fjallar um, sem og 15. gr., eru eign ríkisins. Skulu þeir varðveittir í Þjóðminjasafni Íslands eða í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni. Ef upp kemur ágreiningur um hvar varðveita skuli forngripi sker þjóðminjavörður úr.
Þjóðminjalögin eru í heild sinni hérna; http://www.althingi.is/lagas/137/2001107.html