Tenglar

19. apríl 2016 |

Kröfur ríkisins í engu samræmi við fjárframlög

Linda Nylind/Guardian.
Linda Nylind/Guardian.

Flest hjúkrunarheimili landsins hafa aldrei haft þjónustusamning við ríkið vegna þeirrar þjónustu sem þau inna af hendi. Undanfarna 15 mánuði hafa þó staðið yfir formlegar samningaviðræður milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) um slíka þjónustusamninga. Yfir 30 formlegir samningafundir og fjöldi vinnufunda um einstök atriði hafa verið haldnir auk undirbúningsfunda af ýmsu tagi. Þrátt fyrir mikinn samningsvilja af beggja hálfu hafa viðræðurnar ekki skilað árangri. Meginhindrunin felst í mjög óljósum skilaboðum frá því opinbera um þá þjónustu sem ríkisvaldið ætlast til að hjúkrunarheimilin veiti.

 

Þannig hefst fréttatilkynning frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Síðan segir:

 

Meginviðmiðanir um lágmarksþjónustu hjúkrunarheimila koma fram í kröfulýsingu stjórnvalda frá 2013. Þar segir m.a.: „Hlutverk þessarar lýsingar er að vera kröfuskjal með lágmarkskröfum sem velferðarráðuneytið gerir til þess aðila sem tekur að sér rekstur þjónustunnar og um þá þjónustu sem hann skal veita. Til viðbótar kröfum í þessari lýsingu koma faglegar gæðakröfur sem embætti landlæknis setur starfseminni.“ Í úttektum Embættis landlæknis á starfsemi hjúkrunarheimila gerir embættið nær undantekningarlaust eftirfarandi athugasemd: „... nær ekki lágmarkshlutfalli sé miðað við Viðmið um mönnun á hjúkrunarheimilum ...“.

 

Í úttekt Ríkisendurskoðunar vegna rekstrarársins 2013 kom fram fram að langflest hjúkrunarheimili landsins eru rekin með tapi sem var samtals rúmlega 1 milljarður það ár. Þó að 13 heimili séu rekin með hagnaði en afkoma 42 sé neikvæð, er þjónusta heimilanna mismunandi og var hún ekki mæld. Jafnframt kemur fram að aðeins tvö heimili telja sig uppfylla mjög vel kröfulýsingu velferðarráðuneytis um lágmarksviðmið þjónustunnar og má því leiða líkur að því að rekstrartapið væri umtalsvert meira ef öll hjúkrunarheimilin uppfylltu lágmarksviðmið kröfulýsingarinnar.

 

SFV hafa óskað eftir því að samningsaðilar létu óháðan aðila kostnaðargreina þjónustuna til að fá úr því skorið hvað hún kostar í raun, enda hafa hjúkrunarheimilin (og fleiri) bent á að fjárframlög til heimilanna sé allt of lág til að þau geti mætt þeim kröfum sem gerð er um þjónustuna. SÍ hafa ekki fallist á að taka þátt í slíkri faglegri og óháðri úttekt. Í lögum um Sjúkratryggingar Íslands er þó beinlínis ætlast til þess að aðkeypt þjónusta af þessu tagi sé kostnaðargreind. Ríkisendurskoðun hefur einnig ítrekað bent á að gerð þjónustusamninga sé enn ólokið og að kostnaðargreining kröfulýsingarinnar hafi aldrei farið fram.

 

Af þeim sökum ákváðu Grund og Hrafnista að leita til ráðgjafarfyrirtækisins Nolta um að framkvæma kostnaðargreiningu á rekstri hjúkrunarheimilis sem uppfyllti allar opinberar kröfur til þjónustunnar. Starfsfólk Nolta hefur áralanga reynslu af rekstri heilbrigðisstofnana og hentaði því vel til verksins. Í stuttu máli sýnir skýrsla Nolta að hækka þarf greiðslur um u.þ.b. 30-40% eigi hjúkrunarheimilin að geta fjármagnað þá þjónustu sem gildandi kröfulýsing velferðarráðuneytisins og opinber mönnunarmódel landlæknis segja til um.

 

Ríkisstjórnin hefur boðað úrbætur í fjárframlögum til hjúkrunarheimilanna á þessu ári og mun kynna þær á næstunni. Kostnaðarútreikningur Nolta benda til að auka þurfi framlögin um að minnsta kosti 9 milljarða króna. Að mati SFV verður ríkisvaldið að gera það upp við sig hvaða þjónustu það vill kaupa af hjúkrunarheimilunum enda ólíklegt að hægt sé að bæta við svona miklu fjármagni í málaflokkinn. Það er mjög mikilvægt út frá hagsmunum heimilisfólks og aðstandenda, rekstraraðila hjúkrunarheimilanna og starfsfólks þeirra og ekki síst skattgreiðenda.

 

Ljóst er að þjónusta hjúkrunarheimila er nokkuð misjöfn og því er m.a. mikilvægt að skilgreina hvort þau eigi öll að veita nákvæmlega sömu þjónustu eða ekki. Að mati SFV er vafasamt að semja um þjónustu sem uppfylli ekki lágmarkskröfur Embættis landlæknis um mönnun á hjúkrunarheimilum. Boltinn er því hjá stjórnvöldum hvernig þau hyggist bregðast við til lausnar málsins.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31