Tenglar

10. mars 2010 |

Krufningar á vestfirskum refum

Páll og Ester Rut við krufningu.
Páll og Ester Rut við krufningu.
Melrakkasetur Íslands í Súðavík og Náttúrustofa Vestfjarða (Nave) eru í samstarfi við Háskóla Íslands um krufningar á veiddum refum á Vestfjörðum. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem gerðar eru markvissar rannsóknir á veiddum refum í fjórðungnum og upplýsinga aflað, m.a. um stofngerð. Þær upplýsingar á síðan að vera hægt að nota til að stjórna veiðum á refastofninum á svæðinu á hagkvæmari hátt en hingað til.

 

Þetta kemur fram á vef Melrakkaseturs Íslands.

 

Verkefnið gengur út á að safna þeim dýrum til krufninga sem veidd eru á svæðinu, en þá verða sveitarfélögin að fara fram á heilt dýr í stað þess að greiða fyrir skott eingöngu. Einnig þurfa að fylgja upplýsingar um skotstað og dagsetningu veiða. Vorið 2009 var verkefnið kynnt fyrir öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum og hefur Súðavíkurhreppur þegar hafist handa og þar söfnuðust hátt í fjörutíu dýr á síðasta ári.

 

Þessi dýr voru krufin í nýrri krufningaraðstöðu hjá Náttúrustofu Vestfjarða núna í febrúar. Viðkomandi veiðimenn og sveitarfélag munu fá senda skýrslu þar sem fram kemur m.a. aldur og frjósemi dýranna, ásamt fleiri dýrum sem veidd voru annars staðar á landinu. Dýrin voru krufin af dr. Páli Hersteinssyni og Ester Rut Unnsteinsdóttur en þeim til aðstoðar var starfsfólk Nave í Bolungarvík.

 

Meltingarfæri dýranna voru tekin og sett í frysti en innihald þeirra verður skoðað seinna. Hausar dýranna eru soðnir og tennur dregnar úr til aldursgreininga. Mælingar á hreinsuðum kjálkum hafa lengi verið stundaðar hérlendis sem erlendis og gefa ýmsar vísitölur um líkamsbyggingu. Fitulag dýranna var mælt en það er vísbending um líkamsástand og aðgang að fæðu.

 

Nánar hér

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31