Krufningar á vestfirskum refum
Þetta kemur fram á vef Melrakkaseturs Íslands.
Verkefnið gengur út á að safna þeim dýrum til krufninga sem veidd eru á svæðinu, en þá verða sveitarfélögin að fara fram á heilt dýr í stað þess að greiða fyrir skott eingöngu. Einnig þurfa að fylgja upplýsingar um skotstað og dagsetningu veiða. Vorið 2009 var verkefnið kynnt fyrir öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum og hefur Súðavíkurhreppur þegar hafist handa og þar söfnuðust hátt í fjörutíu dýr á síðasta ári.
Þessi dýr voru krufin í nýrri krufningaraðstöðu hjá Náttúrustofu Vestfjarða núna í febrúar. Viðkomandi veiðimenn og sveitarfélag munu fá senda skýrslu þar sem fram kemur m.a. aldur og frjósemi dýranna, ásamt fleiri dýrum sem veidd voru annars staðar á landinu. Dýrin voru krufin af dr. Páli Hersteinssyni og Ester Rut Unnsteinsdóttur en þeim til aðstoðar var starfsfólk Nave í Bolungarvík.
Meltingarfæri dýranna voru tekin og sett í frysti en innihald þeirra verður skoðað seinna. Hausar dýranna eru soðnir og tennur dregnar úr til aldursgreininga. Mælingar á hreinsuðum kjálkum hafa lengi verið stundaðar hérlendis sem erlendis og gefa ýmsar vísitölur um líkamsbyggingu. Fitulag dýranna var mælt en það er vísbending um líkamsástand og aðgang að fæðu.