Tenglar

17. ágúst 2011 |

Kvæðamannafélag á suðursvæði Vestfjarða í fæðingu

Sigurður Breiðfjörð rímnaskáld.
Sigurður Breiðfjörð rímnaskáld.

Áhugafólk hefur ákveðið að halda stofnfund kvæðamannafélags á suðursvæði Vestfjarðakjálkans sunnudaginn 4. september. Auk þess sem stofnfélagar verða skráðir, lög samþykkt, nafn ákveðið og stjórn kosin verður umræða um kvæðamennsku, starf kvæðamannafélaga og vísnagerð. Bókin Silfurplötur Iðunnar verður kynnt og kvæðalög leikin af diskum sem henni fylgja. Loks verða æfðar nokkrar stemmur þannig að allir kunni þær í fundarlok, framhald rætt og næsti fundur ákveðinn.

 

Fundurinn verður í Skor, þekkingarsetri, Aðalstræti 53 á Patreksfirði, og hefst kl. 14. Kostnaður vegna stofnunar félagsins og stemmukennslu fer eftir fjölda. Áhugasamt fólk sendi staðfestingu á netfangið magnus@atvest.is fyrir fimmtudaginn 25. ágúst. Nánari upplýsingar gefur Magnús Ólafs Hansson í síma 490 2301 eða 868 1934.

 

 

Silfurplötur Iðunnar

 

Á 75 ára afmæli Kvæðamannafélagsins Iðunnar 15. september 2004 kom út bókin Silfurplötur Iðunnar. Bókin hefur að geyma fjóra geisladiska með 200 fyrstu stemmunum sem félagið lét taka upp og voru teknar upp á silfurplötur (þær eru ekki úr silfri heldur vinýlplötur með silfruðum lit eins og þá var ekki ótítt) á árunum 1935-36. Bókin inniheldur allar vísur sem kveðnar eru og stemmurnar skrifaðar á nótum. Auk þess eru greinar um félagið, kveðskap, rímur og upptökurnar eftir valinkunna sérfræðinga. Bókinni fylgir ítarleg nafnaskrá allra sem koma við sögu.

 

Gunnsteinn Ólafsson, hljómsveitarstjóri og stofnandi Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, sagði í ræðu 15. sept. 2004 í tilefni af útgáfunni og afmælinu:

 

Hér eru kvæðalög í fyrsta sinn gefin út bæði á nótum og með upprunalegum hljóðritunum. Þar getur að heyra hina aldagömlu kvæðalagahefð ómengaða af tónlist 20. aldar, einstaka heimild um hljóðheim fyrri alda.

 

Kvæðamennirnir á silfurplötum Iðunnar eru aðeins 13 að tölu en þeir kveða stemmur sem rekja má til 70 annarra kvæðamanna víðs vegar að af landinu. Við útgáfuna var kappkostað að finna hvaða kvæðamenn fylltu þennan hóp, hvar þeir bjuggu og allt annað sem varpaði ljósi á uppruna laganna. Þá var rakin slóð til jafnmargra skálda og hagyrðinga sem áttu lausavísur eða rímnabrot á upptökunum. Alls koma því um 170 kvæðamenn, skáld og hagyrðingar við sögu á silfurplötum Iðunnar.

 

Rannsóknin á kvæðalögunum leiddi margt forvitnilegt í ljós. Í fyrsta lagi staðfesti hún að rímnakveðskapur var sameign allra Íslendinga. Í nafnaskrá bókarinnar getur að líta bæði bændur og sjómenn, flækinga og rektora, kvennamenn jafnt sem skáldkonur, sýslumenn, presta, vinnukonur og farandverkamenn sinnar tíðar. Þar er saman kominn þverskurður íslensku þjóðarinnar.

 

Í öðru lagi renna silfurplötur Iðunnar stoðum undir þá fullyrðingu sr. Bjarna Þorsteinssonar í þjóðlagasafni hans, að kvæðalagahefðin hafi verið sterkust norðanlands og vestan.

 

Margvíslegan fróðleik um þetta efni er að finna á vef Kvæðamannafélagsins Iðunnar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30