Kveðjumessa og kaffisamsæti
Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir kveður söfnuð sinn í Reykhólakirkju á morgun, sunnudag, og hefst athöfnin kl. 14. Viðar Guðmundsson annast tónlistina að venju og leiðir almennan safnaðarsöng. Að messu lokinni er boðið til kaffisamsætis í borðsal Reykhólaskóla.
Fyrir nokkru var sr. Elína skipuð í embætti sóknarprests í Odda á Rangárvöllum og tók við því um síðustu mánaðamót.
Sr. Elína Hrund þjónaði sóknunum sex í Reykhólaprestakalli frá 1. nóvember 2008 eða í nærfellt sjö ár. Upphaflega var hún sett í embættið tímabundið vegna sjúkraleyfis og síðan fæðingarorlofs sr. Sjafnar Þór sóknarprests á Reykhólum, en umsækjendur voru sjö. Síðan þjónaði hún áfram lausráðin eftir að sr. Sjöfn sagði starfi sínu lausu þangað til hún var skipuð í embættið.
Þegar sr. Elína kom til starfa á Reykhólum birtist hér á vefnum svolítið spjall við hana, þar sem jafnframt koma fram helstu æviatriði og fjölskylduhagir.
Sr. Jóhanna Sigmarsdóttir var fyrir nokkru sett til að annast þjónustu í Reykhólaprestakalli fram að áramótum.