Tenglar

1. nóvember 2011 |

Kvenmannslaus í kulda og trekki kúri ég volandi

Sauchiehall-strætið rómaða í Glasgow.
Sauchiehall-strætið rómaða í Glasgow.

Helmingurinn af Kvenfélaginu Kötlu í Reykhólahreppi eða liðlega tuttugu af alls rúmlega fjörutíu félagskonum ætlar að bregða sér af bæ og skreppa til Skotlands á fimmtudaginn og koma heim aftur á sunnudag. Reyndar er fjöldi kvenfélagskvenna í ekki fjölmennara sveitarfélagi fréttnæmur út af fyrir sig. Farið verður til Glasgow en hluti af hópnum ætlar jafnframt að skreppa með lest til Edinborgar. Ferðalagið þar á milli tekur um klukkutíma.

 

Að sögn Ástu Sjafnar Kristjánsdóttur á Litlu-Grund er dvölin ytra annars ekki að ráði njörvuð niður í smáatriðum enda vandalaust að finna nóg af einhverju skemmtilegu við að vera. „Ég hef ekki minnstu áhyggjur af því“, segir Ásta Sjöfn. Að sjálfsögðu verður líka kíkt í búðir eins og Íslendingar gera ævinlega í Glasgow til að dressa upp mannskapinn og kaupa eitthvað af jólagjöfum.

 

Langt er síðan ákveðið var að fara þessa ferð. Undirbúninginn önnuðust þær Svanborg Guðbjörnsdóttir, Jóhanna Guðmundsdóttir og Kolfinna Ýr Ingólfsdóttir.

 

Þessa daga er spáð mjög hægum suðlægum áttum í Glasgow og hita á bilinu 10-15 stig. Talsverð viðbrigði líklega eftir norðaustanáttina harðvítugu á heimaslóð undanfarið.

 

Þá rifjast (óhjákvæmilega) upp vísa sem Steinn Steinarr orti á sínum tíma og ýmsir húsbændur í Reykhólahreppi munu efalítið tauta meðan konurnar eru í útlandinu:

 

          Kvenmannslaus í kulda og trekki

          kúri ég volandi.

          Þetta er ekki, ekki, ekki,

          ekki þolandi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30