16. maí 2009 |
Kvennakirkjan heimsækir Reykhólaprestakall
Hópur úr Kvennakirkjunni er í heimsókn í Reykhólaprestakalli núna um helgina og gistir á heimavist Reykhólaskóla. Fyrir hádegi í dag voru umræður um ábyrgð á eigin heilsu og lífshamingju. Eftir hádegið verður farið í vettvangsferð og síðan verður sungin messa í Reykhólakirkju kl. 17. Kvennakirkjan sem stofnuð var árið 1993 er sjálfstæður hópur sem starfar innan íslensku þjóðkirkjunnar og byggir starf sitt á kvennaguðfræði.
Í kvöld verður kvöldvaka með innleggi þar sem meðal annars verður sagt frá góðum lífsstíl í kristinni trú og daglegum venjum. Vonast er til þess að þrátt fyrir sauðburð og Evróvisjón komi sem flestir í messuna. Líka er kvöldvakan öllum opin.