Kvikmyndabiblían Variety hrósar Heiðinni
„Leikstjórinn Einar fer mildari höndum um fáránleika eyjunnar sem hann er frá en margir forverar hans í starfi", skrifar Elley meðal annars, og bætir því við að myndin sé umvafin einhverri nálægð og hlýju, eiginleikum sem ættu að heilla kvikmyndagesti á kvikmyndahátíðum um alla Evrópu.
Heiðin hefur farið víða með leikstjóra sínum. Nú síðast var hún í Kína þar sem hún stóðst ritskoðun þarlendra stjórnvalda en meðal annarra hátíða má nefna kvikmyndahátíðir í Noregi, Þýskalandi og Eistlandi.
Einar er nú á fullu við að undirbúa heimildarmynd sem vafalítið á eftir að vekja mikla athygli en þar safnar hann saman myndskeiðum frá fólki á Vestfjörðum frá árunum 1960 til dagsins í dag. Myndin er unnin í samvinnu við Kvikmyndamiðstöð Íslands og Ríkisútvarpið. Þá kemur fram á heimasíðu Passportfilms, kvikmyndafyrirtækis Einars, að í undirbúningi sé spennumyndin Vista og heimildarmyndin La Colonia.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Sjá einnig:
17.05.2009 Reykhólahreppur slapp gegnum ritskoðun í Kína
17.11.2008 Heiðin fær prýðilega dóma í Þýskalandi