Kvikmyndagerðarmaður bara á kvöldin og um helgar
„Við leggjum upp með hlutleysi og tökum ekki sjálfir afstöðu með eða á móti íslensku krónunni. Á hinn bóginn leiðum við fram fjölmörg sjónarmið og tölum við fólk sem hefur fastmótaðar skoðanir. Stjórnmálamenn, hagfræðinga, heimspekinga, fólk í atvinnulífinu, sjómenn, bændur og fólkið á götunni. Það gleymist stundum að almenningur hefur líka skoðanir. Þá er í myndinni sögumaður sem útskýrir hagfræðileg hugtök og annað slíkt á afar aðgengilegan hátt. Þessi mynd fjallar fyrst og fremst um krónuna sem samfélagslegt fyrirbæri.“
Þetta segir Garðar Stefánsson, leikstjóri heimildamyndarinnar Íslenska krónan, sem frumsýnd verður í Bíói Paradís í Reykjavík á laugardag, 7. mars. Rætt er við hann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag undir fyrirsögninni Hagfræðingur á gallabuxum. Fólk í Reykhólahreppi þekkir Garðar sennilega betur sem framkvæmdastjóra og einn af stofnendum Norðursalts á Reykhólum en sem leikstjóra. Hann er sjálfmenntaður í kvikmyndagerð en hefur lengi haft áhuga á greininni eða allt frá menntaskólaárum. „Ég er bara kvikmyndagerðarmaður á kvöldin og um helgar,“ segir hann í viðtalinu í Morgunblaðinu. Þar segir einnig meðal annars:
Garðar lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og meðan á því námi stóð fékk hann þá hugmynd að gaman gæti orðið að gera heimildamynd um íslensku krónuna, ætlaða almenningi. „Gjaldmiðill er tæki sem maðurinn hefur búið sér til í því skyni að auðvelda sér viðskipti og þetta langaði mig, á grundvelli náms míns, að útskýra fyrir fólki. Hvað er gjaldmiðill og hvers vegna þurfum við á honum að halda?“
Garðar fékk Atla Bollason bókmenntafræðing til liðs við sig og skrifuðu þeir handritið í sameiningu. „Hagfræðin er oft þurr upptalning á orðum og staðreyndum sem fæstir hafa leitt hugann að og þess vegna þótti mér upplagt að fá bókmenntafræðing að verkefninu til að horfa á það úr annarri átt. Við köllum þetta gallabuxnahagfræði. Þeir sem tala um og útskýra hagfræði eru oftast nær í jakkafötum en við erum bara í gallabuxunum og útskýrum málið fyrir fólki á sama plani.“
Garðar og Atli fengu styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa handritið sumarið 2008 og voru komnir vel af stað þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra birtist brúnaþungur í sjónvarpinu og bað Guð að blessa Ísland.
„Allt breyttist og við sáum strax að við yrðum að byrja upp á nýtt. Eftir á að hyggja var það alls ekki slæmt, enda hefur tíminn sem liðinn er frá hruni verið ótrúlega tíðindamikill í gjaldmiðilsmálum. Einn daginn var krónan baggi á þjóðinni en þann næsta átti hún að bjarga henni. Fleira hefur gerst, svo sem gjaldeyrishöftin, hremmingar evrunnar, dómsdagsspár um Evrópusambandið, og stafrænir gjaldmiðlar eins og Bitcoin komnir fram á sjónarsviðið. Myndin hefur því þróast mikið og í dag má segja að hún snúist um að útskýra hvað peningar eru og hvert peningar eru að stefna. Við rekjum söguna, tenginguna við gullið, og komum inn á verðtryggingu, verðbólgu, stýrivexti, hlutverk seðlabanka og þar fram eftir götunum.“
Íslenska krónan er þriðja heimildamynd Garðars Stefánssonar. Fyrst gerði hann Sófakynslóðina ásamt Áslaugu Einarsdóttur, sem fjallar um aktivisma á Íslandi og er aðgerðarsinnum fylgt eftir. Fyrir þá mynd fengu þau verðlaun á Skjaldborgarhátíðinni. Önnur myndin er Ísland-Úganda sem hann gerði með Rúnari Inga Einarssyni. Þar var gerður samanburður á Íslendingum og Úgandamönnum, fólki á svipuðu róli í lífinu.