Tenglar

8. desember 2011 |

Kvikmyndaklúbburinn Kittý stofnaður á Patró

Úr Skjaldborgarbíói.
Úr Skjaldborgarbíói.

Í fyrradag var haldinn stofnfundur kvikmyndaklúbbs á Patreksfirði. Fundurinn var haldinn í Skjaldborgarbíói sem verður helsta vígi klúbbsins og stofnfélagar eru hátt í tuttugu. Klúbburinn hlaut nafnið Kvikmyndaklúbburinn Kittý. Hlutverk hans er að gefa félögum kost á að horfa saman á kvikmyndir sem verða alla jafna ekki fyrir valinu hjá kvikmyndahúsum landsins.

 

Ákveðið var á stofnfundinum að stefna að kvikmyndasýningum annan hvern miðvikudag og munu félagar skiptast á að velja myndir. Sá félagi sem velur mynd skal taka saman örlítinn fróðleik um viðkomandi mynd og senda öðrum félögum fyrir sýninguna. Hann mun einnig stýra umræðum eftir sýningu.

 

Ætlast er til að hver og einn félagi greiði 500 krónur í aðgangseyri og mun hann renna óskiptur til Skjaldborgarbíós. Ekki þarf að vera félagi í klúbbnum til að geta sótt sýningar. Þær verða opnar almenningi og eru íbúar allra sunnanverðra Vestfjarða hvattir til að kynna sér þær sýningar sem verða í boði.

 

Kvikmyndaklúbburinn Kittý er öllum opinn og ekkert aldurstakmark. Þó skulu aldurstakmarkanir hverrar myndar fyrir sig ávallt virtar.

 

Sýningar klúbbsins verða kynntar í dagskrá sem verður auglýst með fjöldatölvupósti og í auglýsingakassa Skjaldborgar. Félagar klúbbsins fá þar að auki tölvupóst með upplýsingum um næstu mynd.

 

Það er ekki algengt að bæjarfélag af þeirri stærðargráðu sem Patreksfjörður er búi yfir þeim munaði að geta sýnt kvikmyndir í góðu kvikmyndahúsi á borð við Skjaldborg. Lionsklúbbur Patreksfjarðar hefur unnið mjög gott starf við að halda uppi bíósýningum í húsinu en félagar Kittýjar hafa mikinn áhuga á að nýta húsið enn betur. Þannig mun tilkoma klúbbsins ekki eingöngu veita félögum hans tækifæri til að nördast saman yfir kvikmyndum heldur einnig til að nýta húsið betur og leggja nokkrar krónur í kassann.

 

Á stofnfundinum gleymdist að kjósa í stjórn. Hugsanlega verður bætt úr því á fyrstu sýningu!

 

Þeir sem hafa áhuga á að ganga í klúbbinn geta haft samband við Valla, Samma eða Öldu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31