Tenglar

19. mars 2016 |

Kynbætur: Sömu aðferðir og Kári Stefánsson notar

„Þessar aðferðir hafa algerlega yfirtekið alla nautgriparækt í heiminum á innan við tíu árum. Ekki er annað að sjá en að það skili þeim kynbótum sem menn reiknuðu sig til. Til er að þjóðir þar sem frjáls flutningur er heimilaður á milli landa séu hættar með sjálfstætt kynbótamat og kaupi í staðinn naut út frá þessari erfðagreiningu,“ segir Jón Viðar Jónmundsson, búfjár- og kynbótafræðingur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, um nýja aðferð við kynbætur nautgripa.

 

Þetta kemur fram í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig meðal annars:

 

Nýja aðferðin sem nefnist „Úrval út frá erfðamengi“ grundvallast á því að tekin eru DNA-sýni úr nýbornum nautkálfum og erfðamengið greint. Jón Viðar bendir á að þetta séu nákvæmlega sömu aðferðir og Kári Stefánsson notar við sínar vísindarannsóknir, enda hafi aðferðirnar í upphafi verið þróaðar í búfé.

 

Hægt er að sjá strax með umtalsverðu öryggi hvort kálfurinn er áhugaverður kynbótagripur. Valið fer því fram á fyrsta ári og áður en farið er að taka sæði úr honum. Nú þarf að ala upp nautin, taka úr þeim sæði og sæða ákveðinn fjölda kúa og gera afkvæmarannsóknir til að fá út sömu niðurstöðu. Með nýju aðferðinni sparast sex til átta ár.

 

Hingað til hefur verið talið að íslenski kúastofninn væri of lítill til að hægt væri að beita þessum aðferðum á hann. Þau viðhorf eru að breytast. „Þegar við fórum að skoða þetta núna er þetta alls ekki tilfellið. Stofninn er erfðalega þéttari en reiknað var með. Það þarf tiltölulega einfaldar rannsóknir til að sjá hvernig hann er frábrugðinn öðrum stofnum,“ segir Jón Viðar.

 

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir að þetta sé svo stórt mál fyrir kynbótastarfið að það eigi sér ekki hliðstæðu. Jón Viðar telur að unnt sé að ná að minnsta kosti tvöföldum árlegum framförum, þegar nýja aðferðin verður komin vel í gagnið. Raunar telur hann þetta eina möguleikann til að rækta þennan litla stofn til framtíðar.

 

En möguleikarnir eru fleiri. Þannig geta bændurnir látið taka próf úr kúnum til að athuga hverjar eru áhugaverðastar sem undaneldisgripir. Með því að fá kyngreint sæði gætu þeir sætt betri hlutann með sæði sem gefur ásetningsgripi og notað holdanautasæði til kjötframleiðslu á lakari hluta kúnna.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31