Tenglar

2. febrúar 2019 | Sveinn Ragnarsson

Kyndilmessa

Hreinsunarhátíð  Maríu meyjar er í dag, 40 dögum eftir fæðingu Krists og þá er mikil ljósadýrð við katólska guðsþjónustu og dagurinn því kenndur við kerti eða kyndla og íslenska nafnið Kyndilmessa þaðan upprunnið, segir í Sögu Daganna eftir Árna Björnsson. Þar segir ennfremur að veðrabrigði þyki oft verða um þetta leyti á meginlandi Evrópu.

 

Haft er eftir bónda austur á Skeiðum eftir miðja 20. öld þegar hann sá sólina setjast á kyndilmessu: "Hún ætlar að setjast í heiði, bölvuð." Á sólskin þennan dag að vita á snjóa síðar og hefur sú speki verið umort á íslensku eftir erlendum vísubrotum eða spakmælum og fer hér á eftir:

 

Ef í heiði sólin sést,

á sjálfa Kyndilmessu,

snjóa vænta máttu mest

maður upp frá þessu.

 

Sumir segja að í fyrstu hendingunni eigi að standa „sest“ (eða kannski sezt), og þá geti spásögnin alveg snúist við. Þá er trúlega átt við að það getur þykknað upp og sólin horfið fyrir sólsetur, þó hún skíni hluta dagsins. Svo er hægt að velta fyrir sér hvort það er ekki einmitt líklegt að tíðarfar á heilu missiri velti á einni kommu.

Lesendum er eftirlátið að finna út hversu snjóþungt verður næstu vikurnar, en geta kannski stuðst við meðfylgjandi myndir sem voru teknar í dag.

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2023 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31