Tenglar

13. október 2008 |

Kynning á nýrri löggjöf um skóla og menntun

Nú stendur yfir sameiginleg fundaferð menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til kynninga og umræðna um ný lög um skóla og menntun. Fundir fyrir Vesturland og þar með Reykhólahrepp verða haldnir í Menntaskólanum í Borgarnesi á fimmtudag, 16. október. Um er að ræða tvo fundi. Annars vegar fund fyrir stjórnsýsluna, þ.e. sveitarstjórnarmenn, starfsfólk á skólaskrifstofum og fræðsluskrifstofum, skólanefndir og skólastjórnendur. Hins vegar almennan og opinn borgarafund að kvöldi með menntamálaráðherra og starfsfólki menntamálaráðuneytis.

 

Fyrri fundurinn

 

Á fyrri fundinum sem hefst kl. 13 verður megináherslan lögð á að fjalla um þær breytingar og nýjungar sem hin nýju lög boða og hafa munu sérstök áhrif á starfshætti sveitarfélaga og starfsmanna þeirra er sinna málefnum leik- og grunnskóla fyrst og fremst. Fjallað verður um ýmsar spurningar sem vaknað hafa í upphafi skólaársins, þar á meðal gjaldtöku vegna skólamáltíða og ferðalaga nemenda, kostnað vegna náms grunnskólanemenda í framhaldsskólum, skipan skólaráða, samrekstrarmöguleika o.fl.

 

Þá verður vikið að breytingum á hlutverki og skyldum skólastjórnenda og nýjum skyldum sveitarfélaga við eftirlit og mat á gæðum skólastarfs, vegna sérfræðiþjónustu o.fl. Spurt verður hvort skynsamlegt sé að setja á fót millikærustig innan sveitarfélags í ljósi kæruheimilda er tengjast ýmsum ákvæðum nýrra laga. Farið verður yfir stöðu reglugerðar- og námskrárvinnu í tengslum við lögin o.fl. Þessi álita- og umræðuefni auk þeirra annarra sem fundarmenn hafa áhuga á að bera upp verða í brennidepli á þessum fundum og gefinn verður góður tími til umræðna að loknum framsögum fulltrúa menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fólk sem sækir þennan fund er hvatt til þess að nýta þetta tækifæri vel til þess taka virkan þátt í honum og koma skoðunum sínum á framfæri. Álit sveitarstjórnarmanna og starfsmanna og stjórnenda skóla- og fræðslumála á nýjum lögum og þeim áhrifum sem þau munu hafa á skólahaldsveitarfélaga til framtíðar er afar þýðingarmikið innlegg í áframhaldandi starf og framþróun á grundvelli laganna,  þar á meðal í tengslum við þá reglugerðarvinnu sem nú er hafin.    

 

Seinni fundurinn

 

Seinni fundurinn sem stendur frá kl. 20 til 22 verður opinn fundur á vegum menntamálaráðuneytis til kynningar á nýrri menntalöggjöf fyrir skólafólk, foreldra, nemendur og annað áhugafólk um skólamál. Einnig er vonast til góðrar mætingar á þá fundi og jafnframt að sveitarstjórnarfólk fjölmenni til umræðna og fyrirspurna til menntamálaráðherra.

 

Á fundinum mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra kynna nýja menntastefnu en Arnór Guðmundsson skrifstofustjóri í  menntamálaráðuneyti kynnir nýja menntalöggjöf nánar. Að erindum loknum verða almennar umræður við málshefjendur sem svara spurningum ásamt Guðna Olgeirssyni og Sölva Sveinssyni, sérfræðingum í menntamálaráðuneyti.

 

Þessi fundur er öllum opinn og vill menntamálaráðuneytið hvetja skólafólk, foreldra, nemendur og annað áhugafólk um skólamál til að mæta og ræða nýja menntalöggjöf sem býður upp á mörg og spennandi tækifæri fyrir íslenskt skólakerfi.

 

Í nýjum lögum um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda eru margar veigamiklar breytingar sem endurspegla þá stefnu að nemandinn sé í brennidepli í skólastarfinu, faglegt starf kennara verði eflt og áhrif og ábyrgð á námi færð til þeirra sem málið varðar mest.  Dæmi um breytingar eru eftirfarandi: 

  • Áhrif foreldra á starf í leikskólum aukin með stofnun foreldraráða.
  • Skólastjórar í leik- og grunnskólum bera nú aukna ábyrgð á samhæfingu sérfræðiþjónustu og gert er ráð fyrir að þjónustan fari í auknum mæli fram innan veggja í skólans.
  • Samræmd próf í 10. bekk grunnskóla verða felld niður í núverandi mynd en í staðinn tekin upp könnunarpróf í íslensku, ensku og stærðfræði að hausti í 10. bekk.
  • Veitt er heimild til samreksturs, leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla.
  • Framhaldsskólar fá aukið sjálfstæði til að móta námsframboð og gera tillögur um nýjar námsbrautir. Ekki er lengur miðað við fjórar bóknámsbrautir og starfsnám og bóknám verður jafngilt til stúdentsprófs.
  • Menntun kennara verður stórefld og gerð er krafa um að leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar hafi lokið meistaragráðu.

 Nánari upplýsingar um nýja menntastefnu er að finna á nymenntastefna.is.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31