Kynning á svæðisskipulagsáætlun Dala- Reykh. og Stranda
Undanfarna viku er búið að halda kynningarfundi í Búðardal, á Reykhólum og á Hólmavík, þar sem farið var yfir svæðisskipulagstillögu þessara þriggja hreppa ásamt umhverfisskýrslu.
Fundurinn á Reykhólum var 11. október. Þær Björg Ágústsdóttir og Matthildur Kr. Elmarsdóttir frá ráðgjafafyrirtækinu Alta sáu um kynninguna.
Nú er það svo að margir fara í baklás ef minnst er á skipulag af einhverju tagi, telja sig ekki hafa vit á því, finnst það ekki áhugavert, það bara flæki málin og sé kostnaðarsamt og tímafrekt. Ekki skal gera lítið úr því, upplifun okkar er misjöfn og áhugasvið einnig.
Það er ágætt að rifja aðeins upp tildrög þess að svæðisskipulagstillagan var unnin. Samhliða síðustu sveitarstjórnarkosningum voru gerðar skoðanakannanir í Dalabyggð og Reykhólahreppi þar sem spurt var um áhuga fólks á að kanna sameiningu við önnur sveitarfélög.
Svörin voru á þá lund að rúmur helmingur kjósenda vildu kanna málið og flestum leist best á að Dalabyggð, Reykhólahreppur og Strandabyggð sameinuðust. Þar sem ekki var afgerandi niðurstaða úr könnuninni ákváðu nýju sveitarstjórnirnar að fara ekki í formlegar sameiningarviðræður, heldur að finna leiðir til að efla samstarf á svæðinu, sem hefur verið töluvert og gengið framúrskarandi vel.
Niðurstaðan var sú að semja við ráðgjafafyrirtækið Alta um að vinna svæðisskipulagstillögu fyrir hreppana 3, og nú er Alta sem sagt búið að leggja fram tillöguna.
Á fundinum kom fram að það vantaði þjált og lýsandi nafn á „Skipulagssvæði Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar“, en það er ekki lipurt í munni.
Skipulagsvinnan felst einkum í að safna upplýsingum og álitum á einn stað og gera aðgengilegt fyrir hvern þann sem þarf á þeim að halda. Þarna eru upplýsingar -eða vísbendingar hvar þær er að finna- um atvinnulíf á svæðinu, náttúru, sögu og mannlíf, og flest því tengt. Við yfirlestur á tillögunni virðist vera töluvert um endurtekningar, það er í og með vegna þess að sumir lesa hana kannski ekki frá upphafi til enda, en eiga samt að fá allar upplýsingar um það málefni sem þeir hafa áhuga á.
Í lokin er svo rétt að minna á að frestur til að skila umsögnum og athugasemdum er til 28. október.