Kynningarfundur um Íslendinga í Vesturheimi
Minnt skal á kynningarfund undir heitinu Vinir handan hafs - létt spjall um Vestur Íslendinga, sem haldinn verður á Reykhólum á morgun, laugardag. Atli Ásmundsson, fyrrum ræðismaður og áður m.a. kennari á Reykhólum segir sögur af starfinu vestra. Guðrún Ágústsdóttir blaðar í Vesturfaraskrá, athugar þar brottflutta úr Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu og spyr spurninganna Hverjir, hvert og hvernig? Síðan eru ábendingar og fyrirspurnir á dagskránni áður en Svavar Gestsson, fyrrverandi sendiherra og aðalræðismaður Íslands í Winnipeg, segir frá Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Vesturheimi og starfsemi þess.
Fundurinn verður í borðsal Reykhólaskóla og hefst kl. 14. Fundarstjóri verður Karl Kristjánsson, bóndi á Kambi í Reykhólasveit.
Kynning þessi er samvinnuverkefni Þjóðræknisfélagsins og utanríkisráðuneytisins.