Tenglar

17. maí 2015 |

Kynnisferð sveitarstjórnar út í Flatey á Breiðafirði

Svipmyndirnar úr ferðinni eru í réttri tímaröð. Ljósm. Ágúst Már Gröndal.
Svipmyndirnar úr ferðinni eru í réttri tímaröð. Ljósm. Ágúst Már Gröndal.
1 af 14

Málefni Flateyjar voru rædd á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps á fimmtudag. Annars vegar var farið yfir minnispunkta Áslaugar B. Guttormsdóttur sveitarstjórnarmanns frá fundi syðra 16. apríl með stjórn Framfarafélags Flateyjar, hins vegar minnispunkta Ingibjargar Birnu Erlingsdóttur sveitarstjóra og Karls Kristjánssonar oddvita frá Flateyjarferð 1. maí. Þá ferð fór öll sveitarstjórnin auk sveitarstjóra og Maríu Játvarðardóttur félagsmálastjóra. Minnisblað sveitarstjóra um þá ferð fer hér á eftir.

 

Sveitarstjórnarfólkið auk Karls oddvita sem fór þessa ferð út í Flatey voru þau Vilberg Þráinsson, Sandra Rún Björnsdóttir, Áslaug B. Guttormsdóttir og Ágúst Már Gröndal. Hann tók myndirnar sem hér fylgja og þess vegna er hann ekki á neinni þeirra. Þórður Jónsson í Árbæ á Reykjanesi flutti mannskapinn á báti sínum Darra.

 

 

 

Minnisblað sveitarstjóra um Flateyjarferð 1. maí 2015

 

Tilgangurinn var fyrst og fremst að heimsækja íbúa sveitarfélagsins sem þar búa, en auk þess að skoða það sem upp á borð sveitarstjórnar hefur borist á síðustu misserum og verið er að vinna að í Flatey.

 

Lagt var af stað frá Staðarhöfn kl. 11 um morguninn í blíðskaparveðri. Farið var á bát með Þórði Jónssyni bónda í Árbæ, lagt var upp að bryggju í Flatey um kl. 12.

 

Flateyjarbryggja þarfnast endurbóta

 

Stórstraumsfjara var þennan dag og því gott að skoða Flateyjarbryggju, en Framfarafélag Flateyjar hafði komið á framfæri áhyggjum sínum af því að bryggjan þyldi illa álag Baldurs. Hann væri mikið stærri en það skip sem áður var notað og þyrfti að keyra í springinn til að komast upp að bryggju. Siglingastofnun hefur verið tilkynnt um málið og stóð til að maður frá þeim færi út í Flatey í vikunni fyrir ferð sveitarstjórnar og skoðaði aðstæður, en veður hafði þá hamlað för.

 

Það sem helst var hægt að sjá var að ytra byrði bryggjunar var orðið ljótt og illa farið, þá var gamla bryggjan sem nýrri hlutinn er byggður við orðinn mjög lúinn og er líklegur til að veikja bryggjuna í heild. Myndir voru teknar og hefur þeim verið komið til Siglingastofnunar. Enn stendur til að maður frá stofnuninni fari með Baldri til að kanna aðstæður.

 

Reykhólahreppur eða Stykkishólmsbær?

 

Næsti viðkomustaður var Læknishús hjá Hafsteini Guðmundssyni og Ólínu Jónsdóttur. Þar var tekið vel á móti fólki og voru þar einnig Baldur Ragnarsson frá Byggðarenda og Hrönn Hafsteinsdóttir. Þar var fólki boðið til hádegisverðar og voru málin rædd yfir góðum mat að hætti Ólínu. Farið var yfir hin ýmsu málefni og ekki síst bréf sem íbúar sendu Stykkishólmsbæ, þar sem þeir vildu kanna áhuga Stykkhólms að yfirtaka stjórnsýslu í Flatey.

 

Sveitarstjórn ræddi það mál við íbúa Læknishúss og Baldur. Fram kom að þeim fyndist þau sækja það mikla þjónustu til Stykkishólms að þeim þætti eðlilegt að stjórnsýsla eyjunnar væri þaðan einnig. Farið var yfir málið út frá þeirri þjónustu sem sveitarfélög veita og málin rædd.

 

Skoðunarferð um eyjuna

 

Eftir að hafa kvatt íbúa og gesti í Læknishúsi var gengið um athafnasvæði Tröllenda, hús Flateyjarveitna skoðað og brunnar. Nýlagðir stígar um eyjuna vöktu eftirtekt. Skoðað var svæðið fyrir smábátahöfn við Innstapoll. Flateyjarkirkja var skoðuð og þorpið. Skoðað var landrof við þorpið undir Sólbakka, sem er orðið mjög alvarlegt og hugsanlegt svæði fyrir sjóvarnargarð vegna rofsins. Fólk var sammála um að sjóvarnargarð út frá klettanesinu við Teinæringsvog ætti að skoða vel.

 

Smábátahöfn við Teinæringsvog?

 

Þá voru hjónin Magnús Jónsson og Svanhildur Jónsdóttir í Krákuvör heimsótt. Sveitarstjórn var boðið í kaffi og voru þar einnig rædd hin ýmsu mál, sem og stjórnsýsla Flateyjar, brunavarnamál, sjóvarnagarðar, bryggjan í Flatey og siglingar til og frá Reykhólum. Þá kom það fram að þeim hjónum þætti slæmt að geta ekki haft bát á floti allan veturinn til að sæta lagi á að komast í land þegar veður leyfði. Þau töldu smábátahöfn við Teinæringsvog í tengslum við sjóvarnargarð vera áhugaverðari kost en skipulagða bryggju við Innstapoll.

 

Gott að ræða málin sem brenna á fólki í Flatey

 

Þar með lauk ferðinni og var siglt í góðu veðri aftur til Reykhóla. Sveitarstjórn þótti sérstaklega vel tekið á móti þeim hjá íbúum og mjög gott að hitta þá og fá tækifæri til þess að ræða þau mál sem á þeim brenna.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31