9. júní 2009 |
Kýrnar á Erpsstöðum í Dölum sletta úr klaufunum
Rjómaísframleiðsla er hafin á Erpsstöðum í Dölum undir vöruheitinu Kjaft-æði og undir kjörorðinu Beint frá býli. Jafnframt hefur verið opnuð heimasíða þar sem starfsemin á bænum er kynnt. Í sumar taka Erpsstaðir þátt í Opnum landbúnaði og getur ferðafólk og aðrir sem vilja komið þar og kynnt sér kúabú, skoðað byggingarnar og heilsað upp á húsdýrin. Opið verður laugardaga og sunnudaga kl. 13-17 nema á morgun, miðvikudag, þegar kýrnar verða látnar út í fyrsta sinn eftir langa inniveru. Það verður gert kl. 16.30 og þá munu þær spretta úr spori og sletta úr klaufunum eins og nautgripa er siður við slík tækifæri. Allir eru velkomnir að koma á Erpsstaði og fylgjast með þessum viðburði og jafnframt verður ísbúðin opin kl. 16-18.
Erpsstaðir eru undir Sauðafelli í Miðdölum, skammt ofan við þjóðveg 60, um þrjá kílómetra sunnan við Kvennabrekku.
Þess má geta, að Erpsstaðabúið fékk í vor einn af hæstu styrkjum félagsmálaráðuneytisins til atvinnumála kvenna. Styrkurinn var veittur til þróunar hugmyndar um rjómabú þar sem framleiddar yrðu ýmsar vörutegundir á borð við ís, eftirrétti og osta.
Sjá einnig:
> Erpsstaðir í Dölum - heimasíða
> Beint frá býli - félag heimavinnsluaðila (þar á meðal er Staður á Reykjanesi í Reykhólahreppi)
> Opinn landbúnaður - Bændasamtök Íslands