Kyrrlát kvöldstund með KK og Ellen
Það var ljúf og notaleg stemming í Reykhólakirkju, þar sem systkinin Ellen og KK voru með tónleika, en þau ferðast núna á aðventunni vítt og breitt um landið og halda tónleika sem þau kalla Kyrrlát jól.
Að vísu hafa þau þurft að aflýsa einhverjum tónleikum vegna veðurs, en við því má búast á þessum árstíma.
Við vorum heppin og fengum að njóta þess að hlusta á þau syngja lágstemd lög, gamalkunnug jólalög og spjalla um lífið og tilveruna.
Í óformlegu spjalli eftir tónleikana sögðu þau að það hefði mátt vera ögn hlýrra í kirkjunni (hér væri settur broskarl ef þetta væri facebookstatus), annars voru þau ánægð með viðtökurnar og gáfu í skyn að þau væru til með að koma aftur síðar.
Þeim eru færðar innilegustu þakkir fyrir þessa góðu heimsókn og sálubót.
Gunnar Sveinsson, fimmtudagur 06 desember kl: 09:39
Gaman að heyra af þessu,
Mikið væri gaman og friðsælt að fá þau KK og Ellen til að spila í Flateyjarkirkju á aðventunni og fá hina sönnu jólastemmingu. En á þessum tíma er mjög fámennt í Flatey og ekki líklegt að fjölmennt verði til kirkju í desember. En á sumrin er mikill fjöldi og þá væri gaman að fá þau systkinin til að gleðja okkur með ljúfum tónleikum. Sjáum hvað setur. Með jólakveðjum úr Flatey.
Gunnar í Eyjólfshúsi