Tenglar

3. febrúar 2011 |

LBL: Fólki sé ekki mismunað eftir landsvæðum

Stjórn samtakanna Landsbyggðin lifi skorar á Alþingi og ríkisstjórn að binda í lög hvaða opinber þjónusta skuli vera á hverju landsvæði fyrir sig, með það að markmiði að þjónustustig sé ekki skert á þann hátt að fólki sé mismunað eftir landsvæðum. Einnig er mikilvægt að rekstrarhagræðing skili raunverulegum sparnaði en felist ekki einungis í flutningi á þjónustu og þar með kostnaði milli landsvæða og standa þannig vörð um hagsmuni íbúa landsins alls til framtíðar, hvort sem í hlut eiga fámennar byggðir eða þéttbýli.

 

Greinargerð

 

Lýst er þungum áhyggjum yfir stefnuleysi stjórnvalda í uppbyggingu og rekstri opinberrar þjónustu. Nauðsynlegt er að sett verði skýr stefna um hvaða þjónusta skuli vera á hverju landsvæði fyrir sig og settur verði skýr lagarammi utan um þá þjónustu, með það að markmiði að fjármagnið nýtist sem best til hagsbóta fyrir íbúa landsins alls. Það er ólíðandi að fjárlög sem kynnt eru í lok hvers árs, og eins og nú síðast voru samþykkt í desember, séu stefnumótandi fyrir lífsafkomu heilu byggðarlaganna og geti breytt aðstæðum þeirra sem þar búa í einu vetfangi.

 

Það er ekki ásættanlegt að móta í raun stefnuna til eins árs í senn. Þessi stutti tími skapar hættu á skammtímasparnaði, sem hugsanlega myndar kostnað til lengri tíma vegna uppsafnaðra fjárfestinga- og þjónustuþarfa. Móta þarf langtímastefnu um opinbera þjónustu, þar sem litið er á heildarrekstrarkostnað opinberrar þjónustu yfir lengra tímabil.

 

Óöryggi um framtíð byggðarlaga og þar með þeirra sem þar búa dregur úr þeim allan kraft, m.a. til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar.

 

Hlutverk fjárlaga á að vera að sjá til þess að stefnu stjórnvalda sé framfylgt en ekki að móta hana.
 

Fjárlög ársins 2011 bera þess ljósan vott, að stjórnvöld hafa ekki mótað nokkra framtíðarstefnu um hlutverk og umfang þeirrar þjónustu og starfsemi sem ríkið á að veita og það er ekki á nokkurn hátt ásættanlegt að svo verði áfram.

 

Sjá einnig:

09.01.2011  Guðjón D. Gunnarsson formaður samtakanna LBL

Vefur samtakanna Landsbyggðin lifi

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30