Tenglar

26. júní 2013 | vefstjori@reykholar.is

Láglendisvegi um Gufudalssveit verði lokið 2018

Hjallaháls sumarið 2012. Ljósm. Jónas Guðmundsson í Bolungarvík.
Hjallaháls sumarið 2012. Ljósm. Jónas Guðmundsson í Bolungarvík.

Innanríkisráðherra (sem fer með samgöngumál), vegamálastjóri, fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum og fulltrúar frá atvinnulífi á Vestfjörðum (fiskeldi og ferðaþjónustu) fluttu framsögur á opnu málþingi um samgöngumál, sem Fjórðungssamband Vestfirðinga boðaði til á Tálknafirði á föstudag. Tilgangurinn var að upplýsa ný stjórnvöld og þingmenn um áherslur Vestfirðinga í samgöngumálum.

 

Í tilkynningu frá Fjórðungssambandinu segir: „Fyrir liggur sú staðreynd að þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum eru einu byggðarlögin á landinu sem ekki eru enn komin í heilsársvegasamband, hvorki á milli helstu þéttbýlisstaða né með öruggum tengingum inn á aðalþjóðvegakerfið.“

 

Þingið var vel sótt og sátu það rúmlega 100 manns víðs vegar af Vestfjörðum.

 

Á málþinginu kom fram, að tillaga að matsáætlun um Vestfjarðaveg 60 um Gufudalssveit hafi verið kynnt og fari í formlegan feril hjá Skipulagsstofnun á næstu vikum. Jafnframt kom fram, að vonir standa til að framkvæmdum sem nú standa yfir á Vestfjarðavegi 60 (Kjálkafjörður-Eiði) verði lokið haustið 2014 eða einu ári fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.

 

Á þinginu staðfesti innanríkisráðherra þann vilja stjórnvalda að standa við gildandi samgönguáætlun 2011-2022. Það staðfestir að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng verða á tímabilinu 2015-2018 og samhliða því hafin gerð vegar um Dynjandisheiði. Jafnframt staðfesti ráðherra vilja til að stofna til samráðshóps um heilsárssamgöngur í Árneshrepp með aðkomu heimamanna.

 

Málþingið undirstrikaði mikilvægi innanlandsflugs fyrir íbúa og atvinnulíf og þá sem sækja fjórðunginn heim og hvatti innanríkisráðherra til að tryggja framtíð þess.

 

Þingið gerði kröfu um að uppbyggingu fjarskipta verði hraðað þannig að nettenging á Vestfjörðum verði eins og best gerist í landinu.

 

Á þinginu töluðu fulltrúar atvinnulífsins, þar sem fram kom mikilvægi samgangna fyrir uppbyggingu nýrra gjaldeyrisskapandi atvinnugreina eins og fiskeldis og ferðaþjónustu, svo ekki væri nú minnst á viðgang og vöxt hefðbundinna atvinnugreina.

 

Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga ítrekaði fyrri ályktanir varðandi vegagerð á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit, að umhverfismati verði lokið og fjármögnun tryggð svo að uppbyggður heilsársvegur á láglendi verði að veruleika fyrir árslok 2018.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31