Tenglar

25. júlí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Landeigendur og héraðsvöld á Breiðafirði á 15. öld

Sverrir Jakobsson sagnfræðingur.
Sverrir Jakobsson sagnfræðingur.

Sverrir Jakobsson sagnfræðingur heldur erindi á Nýp á Skarðsströnd kl. 14 á laugardag, 27. júlí, og fjallar um landeigendur og héraðsvöld á Breiðafirði á 15. öld. Saga Breiðafjarðarsvæðisins á 15. öld hefur iðulega verið sögð sem saga aðsópsmikilla landeigenda. Þetta stafar að einhverju leyti af eðli heimildanna. Þannig gat Arnór Sigurjónsson sótt í mjög auðugan skjalaforða varðandi erfðadeilur afkomenda auðmanna frá 15. öld þegar hann ritaði Vestfirðinga sögu 1975.

 

Flutningur erindisins tekur um hálftíma en síðan verða umræður og boðið upp á kaffi.

 

Í þessum fyrirlestri er ætlunin að gera skýrari mörk á völdum á hinu opinbera sviði og einkasviðinu. Á hinu opinbera sviði voru fulltrúar konungs, sýslumenn sem voru sjaldan lengi í starfi og einungis karlar gjaldgengir í slík störf. Ætlunin er að gera grein fyrir breytingum á starfi sýslumanna á Breiðafirði sem tengjast störfum Björns Þorleifssonar sem hirðstjóra um miðja 15. öld.

 

Á hinn bóginn var svo einkasviðið þar sem yfirráð yfir jarðeignum skiptu miklu máli og erfðamál höfðu áhrif á deilur og jafnvel vígaferli ættingja. Hlutur kvenna var mun meiri á einkasviðinu þar sem þær voru iðulega í þeirri stöðu að reka hjúskaparpólitík og miðla risavöxnum eignasöfnum til næstu kynslóðar.

 

Að lokum verður því velt upp hvers vegna breiðfirskir höfðingjar á 15. öld hafi ekki staðið fyrir ritun mikilvægra handrita í sama mæli og forfeður þeirra á 14. öld.

 

Sverrir Jakobsson er lektor við Háskóla Íslands í miðaldasögu. Jafnframt leiðir hann verkefnið Saga Breiðafjarðar sem fékk styrk hjá Rannís árið 2011. Sverrir er höfundur fjölda greina og fræðirita á sviði sagnfræði.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31