Tenglar

7. júní 2013 | vefstjori@reykholar.is

Landmælingar með IceCORS-stöð á Reykhólum

Þórarinn Sigurðsson verkfræðingur að ljúka frágangi stöðvarinnar í Karlsey. Ljósm. reykholar.is / hþm.
Þórarinn Sigurðsson verkfræðingur að ljúka frágangi stöðvarinnar í Karlsey. Ljósm. reykholar.is / hþm.

Þórarinn Sigurðsson mælingaverkfræðingur hjá Landmælingum Íslands var á Reykhólum í síðustu viku að setja upp IceCORS-mælistöð, en hún er hluti af kerfi sem mun spanna landið allt. Að sögn Þórarins eru gervihnattastaðsetningakerfi eða GNSS/GPS bylting í landmælingum á síðustu árum.

 

GNSS er samheiti yfir gervihnattaleiðsögukerfi heimsins, þ.e. hið bandaríska GPS, GLONASS sem er rússneskt kerfi og GALILEO sem er evrópskt. Með þessari tækni eru verkefni landmælinga óháð veðri, mun nákvæmari og hægt að framkvæma þau á skemmri tíma en með gömlu aðferðunum eins og horna- eða lengdarmælingum.

 

Til að nýta sér þessa tækni eru Landmælingar Íslands að þróa og byggja upp net jarðstöðva sem er kallað IceCORS (Icelandic Continuosly Operating Reference Station). Reykhólastöðin er í Karlsey, rétt við Þörungaverksmiðjuna.

 

Hlutverk þessa nets er að vakta landshnitakerfi Íslands og viðhalda áreiðanleika þess. Veittur er almennur aðgangur að öllum þeim gögnum sem til verða, jafnt vísindasamfélaginu til rannsókna á jarðskorpuhreyfingum og breytingum á yfirborði sjávar, og einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum til þess að leiðrétta þær GNSS/GPS-mælingar sem þar eru gerðar. Einnig er sent út leiðréttingamerki sem notendur GNSS/GPS-tækja geta notað til þess að leiðrétta mælingar sínar og staðsetningu í rauntíma.

 

Í dag samanstendur IceCORS af 12 mælistöðvum. Stöðin á Reykhólum er sú tólfta en þegar kerfið er uppbyggt að fullu verða mælistöðvarnar 25-30. Helstu tæknieinkenni stöðvarinnar á Reykhólum eru:

  • Undirstaða loftnets: Fjórfótur úr stáli.
  • Trimble GPS-loftnet.
  • Trimble GPS-móttakari sem tengist við tölvu.
  • Tölva sem vistar öll mæligögn.
  • Stöð streymir gögnum og hrágögnum í rauntíma. Hrágögn eru á sérstöku formi og eru skráð í tölvu.
  • Samskipti um 3G.
  • Stjórnstöð (server LMÍ) fær gagnastreymið frá jarðstöðinni með því að nota internettengingu.
  • Geo++GNSMART hugbúnaður er notaður fyrir eftirlit við stöðvarnar.
  • Stjórnstöð veitir notendum straum í rauntíma (RTCM) og RINEX-skrár með því að nota GNWEB.

 

Til að geta uppfyllt lög og reglugerðir sem snúa að Landmælingum Íslands þarf stofnunin að sinna rannsóknum og vinna að þróun og nýsköpun í sínum málaflokki.

 

„Vegna jarðfræðilegrar sérstöðu Íslands þurfum við að glíma við meira landris, landsig og landrek en þekkist í flestum öðrum löndum og gerir það að verkum að við verðum að einhverju leyti að þróa okkar eigin aðferðir og lausnir. Þetta gerir viðhald landshnitakerfisins og hæðanets flóknara en ella og þess vegna þarf að þróa aðferðir sem taka á þessum vanda,“ segir Þórarinn. Hann segir að IceCORS-netið sé stórt framfaraskref í landmælingum á Íslandi.

 

„Áreiðanleiki GNSS/GPS-mælinga hins almenna mælingamanns hefur aukist þar sem alltaf er stuðst við nákvæma staðsetningu GNSS-jarðstöðvanna. Þetta minnkar hættu á mistökum sem geta orðið við mælingar og tryggir að allir séu að vinna í réttri viðmiðun. Auk þess sparast tími og tækjabúnaður og verða GNSS/GPS-mælingar hagkvæmari af þeim sökum. Gögn sem myndast við rekstur jarðstöðvanetsins eru kjörin til rannsókna á jarðskorpuhreyfingum og geta sagt til um spennur og streitur sem myndast í jarðskorpunni vegna flekareks. Séu einhverjar jarðstöðvanna tengdar sjávarfallamælum verða til gögn sem segja til um hækkun eða lækkun yfirborðs sjávar og yrði það mikilvægt framlag Íslands til rannsókna á gróðurhúsaáhrifum í Norður-Atlantshafi. Því má segja að GNSS/GPS-jarðstöðvanet sé bæði þjóðhagslega hagkvæmt en einnig muni það efla þjóðaröryggi með því að auðvelda rannsóknir á þeim náttúrufyrirbærum sem Íslendingar glíma við,“ segir Þórarinn Sigurðsson.

 

Að lokum bað hann vefinn að skila þakklæti til starfsmanna Þörungaverksmiðjunnar hf. fyrir alla aðstoðina og hjálpsemina.

 

_____________________________________ 

Hér mætti hnýta því við, að Landmælingar Íslands urðu í fyrsta sæti í vali á „Stofnun ársins 2013“ í flokki meðalstórra stofnana (20-49 starfsmenn), sem greint var frá fyrir skömmu. Þetta er annað árið í röð sem Landmælingar hljóta titilinn Stofnun ársins. Sú góða einkunn sem starfsfólk Landmælinga Íslands gefur vinnustað sínum er vitnisburður um góðan starfsanda, öfluga starfsmannastefnu og góða stjórnun.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31