Tenglar

26. mars 2016 |

Landsins forni fjandi

Séra Matthías Jochumsson.
Séra Matthías Jochumsson.

Þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði orti Hafísinn, eitt af sínum þekktustu kvæðum, laugardaginn fyrir páska árið 1888, en hann bar þá upp á 31. mars. Kannski er ekki úr vegi að minnast þessa kvæðis núna á laugardeginum fyrir páska, þegar illspár um veðrabreytingar af mannavöldum virðast í þann mund að rætast enn hraðar en fram að þessu hefur verið búist við. Jafnframt því sem í vændum er bæði gríðarleg bráðnun jökla og ofsalegri veður en fólk hefur vanist, ásamt hraðri og óstöðvandi hnattrænni hlýnun, gera vísindamenn ráð fyrir kólnandi og mjög versnandi veðurfari á Norður-Atlantshafi og þar með á Íslandi.

 

Erfiður harðindakafli gekk yfir Ísland á níunda áratug 19. aldar og voru þá fólksflutningar til Vesturheims í hámarki. Hafísinn sem lagðist að landi var jafnan vágestur og varð hann tilefni hins magnaða kvæðis séra Matthíasar, sem hefst með orðunum Ertu kominn, landsins forni fjandi.

 

Kvæðið birtist fyrst á forsíðu fréttablaðsins Norðurljóssins á Akureyri viku seinna eða þann 6. apríl. Það má teljast á mörkum þess að vera veraldlegt kvæði og sálmur.

 

Einhverjum kann að þykja furðu sæta að svo mikið kvæði skuli hafa verið ort á einum degi. Hvað séra Matthías varðar má slíkt þó teljast venja frekar en undantekning: Þegar andinn reið yfir hafði skáldið varla undan að skrifa. Stundum bar hann við að fara yfir kvæðin í rólegheitum daginn eftir, slípa og laga, en yfirleitt mun það ekki hafa orðið til neinna bóta heldur þvert á móti.

 

Mörg er matarholan af ýmsu tagi í hafískvæði séra Matthíasar. Hér skal þó aðeins nefnd ein: Í fyrsta erindi talar skáldið um hungurdiska. Það er einmitt heitið sem Trausti Jónsson veðurfræðingur valdi hinu þekkta veðurbloggi sínu.

 

Fleiri þjóðskáld ortu um hafísinn og má þar nefna Einar Benediktsson og Hannes Hafstein. Að líkindum hefur að minnsta kosti Einar legið öllu lengur yfir sínu kvæði en séra Matthías yfir sínu!

 

Hér má sækja forsíðu Norðurljóssins með kvæðinu

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31