Landsmót og hönnunarkeppni Samfés – Stíll 2010
Þá var hönnunarkeppni Samfés haldin í Vetrargarði Smáralindarinnar um síðustu helgi og þar mættu stelpurnar í unglingadeild Reykhólaskóla með hönnun sína, glæsilegan kjól sem þær teiknuðu og saumuðu sjálfar. Aldís Eir Sveinsdóttir í 10. bekk, Eydís Sunna Harðardóttir í 9. bekk og Elínborg Egilsdóttir í 8. bekk hönnuðu kjólinn en Fanney Sif Torfadóttir í 7. bekk var ljósmyndari og hinum til stuðnings. Eydís var sýningarmódel hópsins í Vetrargarðinum en Aldís og Elínborg sáu um greiðslu og förðun.
Stelpurnar stóðu sig mjög vel í alla staði og við getum verið stolt af hönnun þeirra og frammistöðu. Þátttakendur voru margir en alls kepptu 63 félagsmiðstöðvar um verðlaunin í Stíl 2010.
Fjóla Benediktsdóttir og Áslaug B. Guttormsdóttir voru með hópnum allan tímann og var Fjóla starfsmaður hópsins.
- Fréttina skrifar Áslaug B. Guttormsdóttir en myndirnar tók Fjóla Benediktsdóttir.