Laugardagskvöld: Kaffihúsamatseðill og bátavélar
Stefnt er að reglulegum kaffihúsakvöldum á Báta- og hlunninda-sýningunni á Reykhólum í sumar og verða þau stundum með aldurstakmarki öðru hvoru megin. Í þeim tilvikum verður ýmist yngsta kynslóðin að vera heima og passa köttinn eða eldri kynslóðin að vera fjarri góðu gamni.
Núna í kvöld, laugardag, verður fyrsta opna húsið á þessu vori og þar er aldurslágmark 18 ár. Opnað verður klukkan 20, léttur og einfaldur kaffihúsamatseðill og hægt að prófa nokkur spil eða hreinlega bara spjalla. Aldrei að vita nema einhverja gesti úr öðrum sveitarfélögum beri að garði.
Gestum er velkomið að skoða sig um, til dæmis að kíkja í kjallarann þar sem unnið er að uppsetningu bátavélasafnsins mikla frá Akureyri sem gefið var til varðveislu á Reykhólum á liðnu hausti. Um klukkan 21 verður það skoðað undir leiðsögn.
„Svo viljum við endilega fá hugmyndir um það hvað fólk vill sjá hjá okkur í sumar,“ segir Harpa Björk Eiríksdóttir framkvæmdastjóri.