Laust sumarstarf á Báta- og hlunnindasýningunni
Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum auglýsir eftir starfsmanni í hlutastarf núna í sumar. Um er að ræða 50% stöðu. Mikilvægt er að umsækjendur séu jákvæðir, duglegir og samviskusamir og hafi gaman af samskiptum við fólk. Nauðsynlegt er að hafa góða þekkingu á héraðinu og því sem það hefur að bjóða.
Brýnt er að umsækjendur búi yfir kunnáttu í erlendum tungumálum, sérstaklega ensku. Reynsla af þjónustustörfum er æskileg.
Hlutverk starfsmanna Báta- og hlunnindasýningarinnar er að afgreiða á sýningunni og í handverksbúð og veita leiðsögn um sýninguna. Einnig munu starfsmenn sjá um bakstur og afgreiðslu á kaffihúsinu okkar sem er að hefja sitt fyrsta starfsár, ef allt gengur eftir. Starfsmenn sjá líka um uppgjör, skýrsluhald, skráningar á munum og almenn störf á upplýsingamiðstöð á sama stað.
Óskað er eftir aðila sem hefur áhuga á því að aðstoða við markaðssetningu og skipulagningu viðburða sem tengjast sýningunni. Þar má nefna Bátadaga, Gengið um sveit, hlut sýningarinnar í Reykhóladögum og fleira.
Vinnutíminn er kl. 11-17/18. Í sumar verður Báta- og hlunnindasýningin opin alla daga frá 1. júní til 31. ágúst.
Umsóknarfrestur er til 20. apríl. Óskað eftir skriflegum umsóknum í netfangið info@reykholar.is. Ef spurningar vakna um fleira er hægt að senda þær í sama netfang.
- Harpa Eiríksdóttir,
framkvæmdastjóri Báta- og hlunnindasýningarinnar á Reykhólum.