Tenglar

9. nóvember 2012 |

Leggst þungt á fámenn en víðlend sveitarfélög

Reykhólahreppur spannar meira en þúsund ferkílómetra svæði.
Reykhólahreppur spannar meira en þúsund ferkílómetra svæði.

Í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem send hefur verið fjárlaganefnd Alþingis, kemur fram að nettóútgjöld sveitarfélaga vegna refa- og minkaveiða árið 2011 hafi verið 107 milljónir króna. Þar segir ennfremur að kostnaður fámennra og víðfeðmra sveitarfélaga sé hlutfallslega mikill. Ekki sé viðunandi að íbúar þessara sveitarfélaga beri stóran hluta kostnaðarins því að þarna sé um að ræða verndun náttúrunnar. Áætlanir gera ráð fyrir því að kostnaður sveitarfélaga á næsta ári vegna minka- og refaveiða verði í heild 120 milljónir.

 

„Á undanförnum árum hefur hlutur sveitarfélaganna bæði er varðar minka- og refaveiðar verið að aukast. Dýrin eru í þeirra nærumhverfi og það er ljóst að þau komast ekki hjá því að láta vinna ref og mink,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við Morgunblaðið í dag.

 

Aðspurður segir hann að sveitarfélögin hafi ekki náð að halda sjó í veiðunum undanfarin ár. „Það hefur dregið úr veiðum af fjárhagsástæðum,“ segir Halldór, og bætir við að málaflokkurinn leggist þungt á fámenn sveitarfélög með stórt landsvæði og nefnir Súðavíkurhrepp sem dæmi.

 

Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Melrakkaseturs í Súðavík, segir að nýjustu tölur sem eru frá 2010 sýni að refastofninn sé um 10.000 dýr. Mjög hraður vöxtur hafi verið í stofninum síðustu 15 ár. Jafnframt megi segja að stofninn hafi tífaldast frá því hann var í sögulegu lágmarki árið 1970.

 

Sjá einnig:

08.11.2012 „Grenjavinnsla og refaveiðar eru í rúst“

 

Þess má geta vegna þess að hér að ofan er sagt um fámenn og víðfeðm sveitarfélög og Súðavíkurhreppur nefndur sem dæmi, að Reykhólahreppur telst 1.090 ferkílómetrar en Súðavíkurhreppur 749 ferkílómetrar (Landmælingar Íslands). Íbúar í Reykhólahreppi eru rétt um 50% fleiri en í Súðavíkurhreppi eða 271 á móti 182 (Hagstofa Íslands).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31