Leiðin þar sem hægt sé að leggja hvað öruggastan veg
„Það er jákvætt og gleðilegt að Skipulagsstofnun hafi fallist á beiðni Vegagerðarinnar um endurupptöku á úrskurði vegar um Teigsskóg,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í samtali við RÚV. Stofnunin hefur fallist á endurupptöku úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar um Reykhólahrepp, á fimmtán kílómetra kafla frá vestanverðum Þorskafirði og vestur fyrir Gufufjörð. Endurupptakan felur meðal annars í sér, að í stað þess að Skipulagsstofnun úrskurði um umhverfisáhrif vegarins veiti hún álit.
„Það er ekki búið að ákveða að vegur verði lagður, en þarna er opnað fyrir möguleika á slíkt,“ segir Hreinn á vef RÚV „Þetta eru fyrst og fremst gleðileg tíðindi fyrir okkur og alla sem það varðar,“ segir hann, og leggur áherslu á að þetta sé sú leið þar sem hægt sé að leggja hvað öruggastan veg.
Veglínan sem verður tekin í umhverfismat er svokölluð Þ-H veglína. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir, að „þær breytingar sem gerðar hafa verið á legu vegarins út úr Teigsskógi að hluta, auk breyttra hönnunarforsendna og hönnunar á þverunum yfir Djúpafjörð og Gufufjörð og breytingar á fyrirkomulagi efnistöku, feli í sér verulegar breytingar á forsendum umhverfismats, sem gefi tilefni til endurskoðunar þess, þar sem umræddar breytingar séu líklegar til að hafa áhrif á umhverfismat framkvæmdarinnar hvað varðar áhrif á skóglendi, landslag og leirur og fjörur.“
Hreinn segir að bæta þurfi við rannsóknum áður en hægt verði að leggja tillögur fyrir sveitarstjórn Reykhólahrepps um það hvernig vegurinn verði lagður og hvenær. Hann sagði að ákvörðun um það kynni að liggja fyrir einhvern tíma frá næstu áramótum og fram á næsta sumar.
Á meðfylgjandi mynd eru Kristján L. Möller þáverandi samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri að opna formlega Þröskuldaleið milli Reykhólahrepps og Strandabyggðar haustið 2009.