Tenglar

19. febrúar 2015 |

Leiðinlegar sögur um óáhugaverð málefni

Á Hörmungardögum í fyrra voru andstyggilegar vöfflur í boði / EÖV.
Á Hörmungardögum í fyrra voru andstyggilegar vöfflur í boði / EÖV.

Veturinn er mörgum erfiður, langur, kaldur, dýr og óútreiknanlegur. Á Hörmungardögum á Hólmavík, sem nú eru haldnir í annað sinn, gefst tækifæri til að njóta allra þessara ömurlegheita saman og reyna að gera gott úr þeim - eða bara að líða ennþá verr yfir hlutskipti okkar í slæmum félagsskap annarra furðufugla.

 

Hugmyndin er að nálgast allt það sem talist getur hörmulegt, með hverjum þeim hætti sem fólk getur látið sér detta í hug. Nálgunin er æði misjöfn og iðulega heldur kómísk, þó einnig fræðandi og jafnvel sorgleg eða alveg hræðileg. En helsti kosturinn er þó sá, að þó að allt klúðrist, þá gerir það ekki endilega til, enda samræmist það þemanu fullkomlega.

 

Til að létta ykkur lundina á þessum erfiðu tímum mun Félagsmiðstöðin Ozon standa fyrir knúskeppni, en allir vita að knús getur læknað flestallt og lætur öllum líða betur. Þátttakendur geta nálgast eyðublað á Facebook-síðu Hörmungardaga, í Kaupfélaginu á Hólmavík, á pósthúsinu eða á Skrifstofu Strandabyggðar. Knúskeppnin stendur til mánudagsins 23. febrúar en eyðublöðum með undirskriftum knúsaðra skal skila til tómstundafulltrúa þriðjudaginn 24. febrúar.

 

Fylgist vel með á www.facebook.com/hormungardagar og www.strandabyggd.is.

 

- Ofanritað kemur fram í tilkynningu frá Esther Ösp Valdimarsdóttur, tómstundafulltrúa Strandabyggðar.

 

 

Dagskrá Hörmungardaganna

 

Föstudagurinn 20. febrúar  

11.30-12.30 Opinn heimalærdómur í dreifnámi FNV, Hafnarbraut 19.

12.30-13 Danspartý í Hnyðju. Fallegum dansi og góðri tónlist ekki lofað.

13-14 Opið hús í Grunnskólanum á Hólmavík.

13-15 Menning og samfélag. Málþing um menningarmiðlun á Kaffi Galdri.

14 Kökubasar leikskólans Lækjarbrekku í KSH.

18-20 Pizza á Café Riis.

21 Hryllingsmyndabíó í ungmennahúsinu Fjósinu, Hafnarbraut 19. (16+)

21 Café Riis. Pub quiz og opinn bar fram eftir nóttu. (18+)

 

Laugardagurinn 21. febrúar  

11 Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur leiðir sniðgöngu. Gengið verður að ljótari stöðum Hólmavíkur og sagðar leiðinlegar sögur um óáhugaverð málefni. Lagt af stað frá bensíndælum N1 við gömlu sjoppuna. Frítt.

12-14 Brunch á Café Riis.

13-16 Opið hús í leikskólanum Lækjarbrekku. Bíósýning, leiksvæði, sala á skrani og listasmiðja. Kaffi og te í boði og popp og djús til sölu.

13-16 Harpa Ósk Lárusdóttir, vefarinn ungi frá Borðeyri, sýnir gaddavírskjól, vefnað og önnur verk í Hnyðju, Höfðagötu 3.

15 Kaffi Galdur. Kynning á Turtle filmfest og frumsýning á stiklu hátíðarinnar. Kaffi og með því til sölu og opinn hljóðnemi fyrir þá sem vilja létta á sér, nöldra, kvarta eða segja frá leyndarmáli.

20-23 Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir stórsýninguna Sweeney Todd, morðóða rakarann við Hafnargötuna. Félagsheimilið á Hólmavík. Miðasala hjá Ester í síma 693 3474.

 

Sunnudagurinn 22. febrúar (konudagur) 

12-14 Brunch á Café Riis.

13-16 Harpa Ósk Lárusdóttir, vefarinn ungi frá Borðeyri, sýnir gaddavírskjól, vefnað og önnur verk í Hnyðju, Höfðagötu 3.

14-16.30 Opið hús hjá Félagi eldri borgara í Flugstöðinni, spil, kaffi og spjall. Öll velkomin.

16 Sauðfjársetur á Ströndum. Kaffihlaðborð, 1.500 kr. fyrir fullorðna og 800 kr. fyrir 6-12 ára. Klukkan 16 flytur Jón Jónsson þjóðfræðingur erindi sem kallast Hugleiðing um hörmungarlíf. Stutta-Sigga, Jóhann beri og fleira fólk.

20 Eyvindur Karlsson - One Bad Day. Hörmungarlög á Kaffi Galdri. Aðgangur ókeypis.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31