Tenglar

26. maí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Leirböð og nudd og heilsufæði á Reykhólum

Steinar og Skotta í garðinum þar sem gróðurhúsið og kaffiaðstaðan koma.
Steinar og Skotta í garðinum þar sem gróðurhúsið og kaffiaðstaðan koma.
1 af 2

Stöðugt bætist við það sem ferðafólki stendur til boða á Reykhólum. Þar á meðal eru leirböð og nudd sem Gistiheimilið Álftaland byrjar með núna í sumar, auk heilsufæðis. Jafnframt er á döfinni að koma upp gróðurhúsi þar sem gestir geti keypt sér grænmeti.

 

Í þessum margþætta tilgangi er Steinar Pálmason í Álftalandi að ljúka við að ganga frá garði rétt við húsið, sem hann byrjaði á fyrir tveimur árum. Þá kom hann þar upp bæði skjólvegg úr jarðvegi og tveimur heitum pottum en núna er á dagskránni að koma þar fyrir kaffiaðstöðu og litlu gróðurhúsi.

 

„Þarna verða tómatar og gúrkur og fleira sem fólk getur keypt um leið og það fær sér kaffisopa,“ segir Steinar. „Eins konar Eden!“

 

„Núna í sumar verðum við í öðrum pottinum með leirbað, heilsubað. Þetta verður heilsuþema hjá okkur. Sirrý [Sigríður Birgisdóttir kona Steinars] er nuddari og ásamt því að bjóða upp á nudd verður sérstakur morgunverðarheilsumatseðill. Fólk sækist eftir því að komast í hveri og vatnið hér er auðvitað beint úr Kötlulaug,“ segir hann.

 

Aðspurður hvort þarna verði leir svipaður þeim sem fólk þekkir úr Hveragerði segir Steinar svo ekki vera. Þetta verði svipað og í Bláa lóninu, ásamt olíuböðum.

 

Myndirnar sem hér fylgja eru teknar með tveggja ára millibili. Á mynd nr. 2 er Steinar búinn að setja niður pottana og helluleggja, búinn að koma upp skjólgarðinum og byrjaður að tyrfa. Mynd nr. 1 var tekin núna og skjólgarðurinn orðinn gróinn. Þarna á flötinni verður kaffiaðstaðan og gróðurhúsið. Skotta, tíkin ljúfa, er eins og vera ber á sínum stað ekki fjarri húsbónda sínum á báðum myndunum.

 

Sjá einnig:

31.05.2011 Gistiheimilið Álftaland: Gott verður betra (+ tenglar á fleiri fréttir)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31